Gripla - 01.01.2001, Side 14
12
GRIPLA
Sérhver skepna heimsins er okkur eins konar bók, mynd eða spegill. Af
lífi okkar, af dauða okkar, af stöðu okkar, af örlögum okkar, tákn sem
má reiða sig á8 (PL 210, 579A).
Gísli smíðar sýnilega tvískipta peninginn til að handbær sé á vísum stað
ein ótvíræð merking, mitt í merkingarofgnótt heimsins. En jafnvel peningur-
inn dugar ekki til af því að Vésteinn kýs að lesa ,bók‘ náttúrunnar eða notar
hana að minnsta kosti sem afsökun fyrir því að hafa merkingu peningsins að
engu. Það kann að vitna um oflæti hans en varla hefur oflæti Gísla verið
minna að skilningi kristinna miðaldamanna. Hann ætlar sér hlut ofar mennsk-
um mætti, vill stjórna framrás atburða með eigin táknum, hyggst jafnvel hafa
vald á hver lifir og hver deyr. Og það er meginatriði þar eð í fyrri hluta sög-
unnar er hvað eftir annað sýnt eða látið að því liggja að Gísli sé of öruggur um
eigin táknskilning og táknhagleik. Það gerist t.d. í frásögninni af launvígunum
tveimur í Haukadal og atburðum sem verða í kjölfar þeirra.
Fyrst er Vésteinn veginn á laun að næturþeli. Þegar þar er komið sögu
hefur Gísli lagt af blót, af því að hann hefur kynnst kristni í Danmörku.9 Sem
kristilega þenkjandi maður í heiðnu samfélagi þar sem hefndarskylda er við
lýði, stendur hann frammi fyrir vígi sem hann veit ekki hver hefur framið og
verður að ákveða hvort hann skal hefna og hvar hefndin á að koma niður. Rík
áhersla virðist lögð á táknræna þáttinn í frásögninni. Að minnsta kosti er sett
fram sérstök skilgreining á muninum á launvígi og morði sem ekki er þekkt
annars staðar að; launvíg er víg þar sem vopnið er skilið eftir í sárinu en morð
þar sem það er ekki gert. Við launvíg er vopnið m.ö.o. látið standa sem tákn er
hefnendur geta túlkað til að hafa upp á vegandanum. Gísli tekur spjótið Grá-
síðu úr sári Vésteins og túlkar það svo að vegandinn komi frá Sæbóli enda þótt
hann viti ekki hver hann er. Hann gengur seinna til hefnda og vegur Þorgrím
mág sinn, á sama hátt og Vésteinn var veginn fyrr.
Líta má á hefnd Gísla frá sjónarhóli ættarsamfélagsins og segja sem svo að
hann hefni af því að sæmd hans sé í veði; hann vegi Þorgrím af því að hann
telji sig ekki eins vandabundinn honum og Þorkeli bróður sínum og finnist
8 Um þetta efni, sjá Curtius 1948:321-27. — Á latínu hljóða orð Allan frá Lille svo: Omnis
mundi creatura / Quasi liber, et pictura / Nobis est, et speculum. / Nostræ vitæ, nostræ mortis,
/ Nostri status, nostræ sortis / Fidele signaculum.
9 í sögunni er sérstaklega tekið fram að Gísli hafi lagt af blót eftir að hann kom frá Vébjörgum.
Þar eð Danir höfðu tekið krismi er hann var ytra, liggur beinast við að skilja breytta hætti hans
svo að hann hafi tekið kristni — þó að ekki sé minnst á að hann hafi látið skírast.