Gripla - 01.01.2001, Side 36
34
GRIPLA
ey mikil í norður frá Irlandi. Þessi lönd eru öll í þeim hluta heims er
Evrópa heitir. (Alfræði I 1908:12; Sturlunga saga. Skýringar ogfræði
1988:54)
Þessi kafli úr heimslýsingu AM 194 8vo sýnir glöggt að ritstjórinn hefur haft
vitneskju um lönd í norðri og vestri og lýsing þeirra er tengd að því er virðist
við einhvers konar landakort. Með fylgir svo fróðleikur um gæsku Leifs
heppna og kristniboð hans á Grænlandi.
Greinilegt er að ritstjórinn hefur þekkt heimildir svipaðar Vínlands sögun-
um; Olafur Ormsson, skrifari handritsins sem ætla má að hafi ritstýrt því,
dvelst á Narfeyri 1387 (Alfræði I 1908:54) og er líklegt að vitneskja um Græn-
land og Vínland í vestri hafi varðveist á Snæfellsnesi í námunda við Helga-
fellsklaustur. (S. B. F. Janson 1944:272) Allur inngangur ritstjórans ber því og
vitni að hann vill beina augum lesandans frá austri til vesturs áður en lagt er af
stað til miðju heimsins, Jórsalaborgar, þar sem menn skyldu leiðréttast. En
skyldi hann hafa gert svo af ásettu ráði?
7
Hvers voru menn að leita í vestri? Sú saga sem einna víðtækust áhrif hafði á
ferðasögur miðalda og ef til vill einnig siglingar manna var tvímælalaust sjó-
ferðasaga heilags Brandanusar, Brendans. Hún hefur verið talin samin á önd-
verðum miðöldum og er til í mörgum gerðum og á mörgum tungum. Ein
þeirra hefur verið þýdd á norrænt mál og er nú aðeins til í brotum í norsku
handriti, NRA68, frá 13. öld. (Heilagra manna sögur I 1877:272-275) Óvíst
er hvort sagan hefur nokkum tíma borist hingað til lands. Sæll Brandanus
virðist lítt hafa verið þekktur hér og hans er aðeins getið í einu íslensku
kalendar frá miðöldum, AM 249 1 fol (Cormack 1994:38). Sjóferðarsaga hans
er á mörkum þess að geta kallast dýrlinga saga; það verða að vísu allmargar
jarteinir, undur sem síðar eiga eftir að verða ritklif í slíkum sögum, eins og t.d.
þegar þeir förunautar Brendans kveikja undir pottum á eyju nokkurri, tekur
eyjan á rás og reynist vera hvalur. (Heilagra manna sögur I 1877:274-275) —
Förunautar Brendans eta ekki hvalket eins og vesturfaramir grænlensku. —
Markmið Brendans er hins vegar ljóst: hann er í landaleit, hann vill finna
fyrirheitna landið, dvalarstað hinna, helgu sælu manna — og það var í vestri.
Ekki er að sjá bein tengsl milli Brandanus sögu og íslenskra sagna. Aftur
á móti hafa ýmis rit, eins og t.d. verk Rufinusar, Historia monachorum, sem