Gripla - 01.01.2001, Síða 47
LIST OG TVÍSÆI í SNORRA EDDU
45
anda (Daemonen). í rannsókn sem birtist árið 1964 stígur Anne Holtsmark því
skrefi lengra þegar hún fullyrðir að Snorri hafi litið á æsina, sem tóku á móti
Gylfa sem illa anda, Óðin sem andskotann sjálfan.12 Gerd W. Weber tók síðan
upp þessa skoðun og rökstuddi frekar með vísun í ágústínska guðfræði.13 Efa-
laust mundi heilagur Agústínus og lærisveinar hans, sem voru ótal margir á
miðöldum, hafa skilið frásögn Snorra svo að Gylfaginning sé ekki annað en
blekkingar djöfulsins. En hafði Snorri sama skilning? Ástæða er til að draga
það í efa.
Hér verður ekki hægt að takast á við öll þau sjónarmið og rök sem fram
hafa komið um túlkun Snorra Eddu. Ætlunin er einkum að ræða um hvemig
verkið er í raun samsett úr ólíkum bókmenntategundum sem taka verður tillit
til við túlkun þess, og ennfremur um það hvemig höfundur beitir tvísæi eða
íróníu í framsetningu efnisins. Efnið sem um er fjallað hefur fangað hugi
fræðimanna svo mjög að þeir hafa minna hirt um framsetningu þess, ekki
gefið því nægan gaum að textinn breytir um eðli eftir því hvaða háttur eða
bókmenntategund er ríkjandi. Þessi eðlismunur ólíkra staða í verkinu gæti
verið skýring á ýmiss konar ósamkvæmni sem menn hafa þóst sjá þar.
Ismeygileg írónía höfundar eykur líka á vanda ritskýrandans. Af þessum
sjónarhóli verður tekin afstaða til ýmissa álitamála, en fyrst verður að fjalla
nokkuð um varðveislu verksins og um Snorra sjálfan.
II
Af Snorra Eddu eru varðveittar fjórar gerðir frá miðöldum, þótt handritið sem
geymir eina þeirra sé að vísu lítið eitt yngra. Ekki er sama efni í öllum þessum
gerðum, og það sem sameiginlegt er, er heldur ekki alls staðar skráð í sömu
röð. Uppsalabók hefur oft verið talin elst, tímasett um 1300 eða skömmu síðar.
Þar segir:
Bók þessi heitir Edda. Hana hefir saman setta Snorri Sturlu son eptir
þeim hætti sem hér er skipat. Er fyrst frá Ásum ok Ými. Þar næst
12 Studier i Snorres mytologi, 22-26.
13 Gerd Wolfgang Weber, „Siðaskipti. Das religionsgeschichtliche Modell Snorri Sturlusons in
Edda und Heimskringla," Sagnaskemmtun. Studies in Honour ofHermann Pálsson on his 65,h
birthday, 26"' May 1986, ritstj. Rudolf Simek, lónas Kristjánsson, Hans Bekker-Nielsen
(Wien, Köln, Graz 1986), 309-329; endurpr. Mythos und Geschichte, 83-97. Sjá einnig Weber
1993.