Gripla - 01.01.2001, Síða 49
LIST OG TVÍSÆI í SNORRA EDDU
47
harla sundurleit, og mikilvægur hluti hennar eru textar sem hljóta að hafa
fengið form fyrir daga Snorra, jafnvel löngu fyrr: tilvitnanir til eddukvæða í
Gyifaginningu og dróttkvæðu vísumar sem eru viðfangsefni og dæmi í
Skáldskaparmálum. Hugsanlegt er líka að einhverjar af goðsögunum, sem
sagðar eru í lausu máli í báðum þessum þáttum, hafi gengið í munnmælum
fyrir daga Snorra í svipuðu formi, þótt aðrar hafi hann samið eftir skáldskap
og kenningum.17
Annað vandamál er að þrír meginbálkar verksins eru svo ólíkir bæði að
efni og formi að það getur virst hæpið að líta á þá sem hluta af einu ‘verki’
sem beri vitni um sjálfri sér samkvæma ætlun og framkvæmd eins höfundar,
jafnvel þótt mark sé tekið á þeim orðum Uppsala Eddu að Snorri hafi sett þá
alla saman í eina bók. Lausn þess vanda er að líta á meginbálkana þrjá, ásamt
formálanum, sem kennslubók sem ætlað sé að miðla lesendum ákveðinni hefð
eða fræðum og binda fræðin um leið í ritað mál að dæmi þeirra sem sömdu
kennslubækur handa klerkum. Markmið þessarar viðleitni hlýtur að hafa verið
að virkja hefðina, styrkja hana eða lífga við, enda segir berum orðum í 8.
kapítula Skáldskaparmála:
En þetta er nú at segja ungum skáldum, þeim er gimask at nema mál
skáldskapar ok heyja sér orðfjglða með fomum heitum, eða gimask
þeir at kunna skilja þat, er hulit er kveðit, þá skili hann þessa bók til
fróðleiks ok skemmtunar... (Edda Snorra Sturlusonar, 86; stafsetning
er hér og í öðrum tilvitnunum samræmd að hætti Islenzkra fornrita).
Auðvitað er líklegt að höfundur hafi haft fleiri lesendur eða áheyrendur í huga
en ung skáld þótt ekki sé það tekið fram.
Alkunna er að Snorri hafði snilldartök á frásagnarlistinni, og það er vert að
gefa því gaum hvemig hann beitir frásagnarlist til að ná fræðandi markmiðum
kennslubókarinnar og hvemig frásagnarlist Eddu, einkum í rammafrásögnum
Gylfaginningar og Skáldskaparmála, getur skerpt skilning okkar á hugmynd-
um hans.
Venja er að líta á Snorra sem sagnaritara, eiginlega sagnfræðing, þótt það
merki annað en það mundi merkja nú á dögum. Ríkar ástæður eru til telja að
17 Flestir fræðimenn telja að hinn goðfræðilegi fróðleikur hafi nær eingöngu varðveist í bundnu
máli, og er meginröksemdin sú að goðsögur í lausu máli hafi ekki varðveist annars staðar en
hjá Snorra. Þetta er þó í sjálfu sér ósennilegt, enda nægar skýringar á því að menn hafi ekki
tekið upp á því að skrásetja goðsagnir fyrir daga hans þótt Snorri fyndi af hugviti sínu aðferð
til að festa þær á bókfell með slíkum fyrirvörum að ekki þurfti að vekja hneykslun.