Gripla - 01.01.2001, Síða 127
GUÐRÚN ÁSA GRÍMSDÓTTIR
LÆRÐUR ÍSLENDINGUR Á TURNI1
AfJóni Ólafssyni Grunnvíkingi
1. Fyrirmynd Jóns Grindvicensis íslandsklukkunnar
Skáldsagan sem Halldór Kiljan Laxness segir í íslandsklukkunni hefir á viss-
an hátt tekið sæti 18. aldar sögu Islands í stað þeirrar sem sagnfræðingar hafa
skráð. Manneskjur skáldverksins með skapgerðareinkennum sínum, tign og
smæð, eru svipsterkari, lífmeiri og jafnvel trúverðugri en þær litlausu persón-
ur, mestmegnis aðgangsharðir embættismenn og réttaðir brotamenn, sem
sagnaritarar hafa sett saman úr annálum, ættartölum, jarðabókum, manntölum,
dómskjölum og reikningum. Islandsklukkan með sínum stíl og persónum
speglar hinsvegar seinni alda þjóðarsögu í hugum þorra landsmanna, þrátt fyr-
ir að höfundur hafi upphaflega getið þess rækilega innan á titilsíðu fyrstu út-
gáfu bókarinnar (1943), að hún sé ekki „sagnfræðileg skáldsaga“, heldur lúti
„persónur hennar, atburðir og stíll einvörðúngu lögmálum verksins sjálfs.“
Eitt meginstef Islandsklukkunnar eru fomar bækur landsins og menn sem
þeim hafa unnað. Sá lærdómsmaður sem þar ber ægishjálm er assessor Amas
Amæus sem á fyrirmynd í handritasafnaranum Áma Magnússyni. í skugga
Amæusar stendur Jón Grindvicensis, skrifari hans og þjónn, fróðleiksfús,
kækjóttur og langleitur og er vandséð hvort var gamall eða ungur. Fyrirmynd
Jóns Grindvicensis var áreiðanlega Jón Ólafsson úr Grunnavík, studiosus anti-
qvarius, sem ól mestallan aldur sinn í Kaupmannahöfn í handritasafni Áma
Magnússonar á loftinu yfir Þrenningarkirkjunni við hliðina á Sívalitumi.
1 Ritgerð þessi er samin upp úr tveimur fyrirlestrum, hinn fyrri var haldinn á þingi á vegum
Góðvina Grunnavíkur-Jóns haustið 1998 og hinn síðari í Skálholti vorið 2000 á málstefnu um
Islandsklukkuna. Meginefni greinarkomsins er sótt í óútgefin eiginhandarskrif Jóns Ólafssonar
og hugsað sem tilraun til þess að opna örlitla sýn á mikinn efnivið varðandi menningartengsl
Islands og Kaupmannahafnar á 18. öld. I sömu átt var stefnt með lítilsháttar úrvali úr bréfa-
skriftum Jóns Ólafssonar úr Grunnavík sem birt var í safnritinu Vitjun sína vakta ber. Ritstj.
Guðrún Ingólfsdóttir, Svavar Sigmundsson. Rvk. 1999, bls. 103-142. Nútíðarritháttur var þar
eins og hér hafður á beinum tilvitnunum í orð Jóns enda hafa þau hér einungis efnislegt gildi,
en benda má á að stafsetningu Jóns er fylgt í Hagþenki sem kom í útgáfu Þórunnar Sigurðar-
dótturárið 1996.