Skírnir - 01.01.1944, Blaðsíða 23
Skírnir
Guðmundur Finnbog'ason
17
útsmoginn í íslenzkum bókmenntum; íslenzkum skáldum
var hann ótrúlega handgenginn. I ritum hans úir og grúir
af tilvitnunum í kvæði þeirra.
En hann fann sér enga skyldu að „heiðra sama og aðrir
allt“. Það voru ekki aðeins stórvirkin og afrekin, sem
hann mat, heldur margt það, sem mönnum er nú gjarnt
að líta á sem hjárænu og viðundur. Þegar söngelskir menn
urðu guðhræddir út af rímnakveðskap í útvarpinu og
héldu, að mannorð okkar meðal útlendinga væri fyrir
bí, brást hann reiður við. Á ættfræði íslendinga, sem satt
að segja er oftast firna-ófrjó, hafði hann allmiklar mæt-
ur, því að hann sá, að þar mundi vera að ræða um merki-
legt efni til erfðafræðirannsókna. Hann hafði mikið gam-
an af hinum forna dróttkvæðaskáldskap, sem flestum þyk-
ir heldur tyrfinn, og hvíldi sig frá öðru með vísnaskýr-
ingum, rétt eins og þegar aðrir skemmta sér við kross-
gátur. í vísnaskýringum lagði hann ekki svo lítið til mál-
anna, og var þar margt fjarska smellið, því að hvorki
skorti frumleik né hugkvæmni né listrænan skilning. Hann
reyndi að skýra vísurnar óbreyttar eins og þær stóðu í
handritunum; honum hefur án efa verið fullljóst, hve
vafasamur ávinningur vísindunum er að flestum „leiðrétt-
ingum“; en auk þess held ég honum hafi fundizt þær vera
eins konar brot á íþróttarreglum: sú gáta verður ekki með
sanni kölluð ráðin, sem breytt er til hægðarauka af þeim,
sem geta skal! En Guðmundur hafði án efa mikið gaman
af að geta gátur; það er ekki tilviljunin einber, að hann
skrifaði um það heila ritgerð. Miklu víðar í ritum hans
en ætla mætti finnst mér ég sjá þetta sama horf til hlut-
anna: jafnvel vinnubrögð og stjórnarfar geta orðið hon-
um eins konar gátur, og hann er hinn ráðsnjalli maður,
sem hefur gaman af að glíma við þær, og listamaður, sem
befur yndi af að koma með snjallar ráðningar.
Guðmundur hafði miklar mætur á hinum dýra kveð-
skap íslendinga. Ég held fyrsta samtal okkar hafi verið
deila um gildi hinna dýru hátta. Svo er sagt, að hann hafi
sjálfur ekki borið við að yrkja vísur undir léttara hætti
2