Skírnir - 01.01.1944, Blaðsíða 102
90
Jón Gíslason
Skírnir
landbúnað. Þetta var á árunum á undan og eftir úrslita-
átökin við Actium. Margar af frjólendum Ítalíu voru
í eyði lagðar. Þegar árið 43 f. Kr. b. kvartar Asinius Pollio
yfir vastitas Italiae, eyðileggingu Ítalíu, í bréfi til Ciceros.
Landbúnaðurinn, hin trausta stoð undir vexti og viðgangi
Rómverja, var afræktur. Stétt sjálfseignarbændanna, sem
staðið hafði dyggan vörð um allt hið bezta í fari þjóðar-
innar, nægjusemi, iðni, guðrækni, heiðarleik, var að deyja
út. Innlendur búrekstur átti bágt með að standast sam-
keppni við innfluttar afurðir, sem framleiddar voru með
vinnuafli þræla í skattlöndunum. Bændur urðu og sem
aðrir gripnir óyndi því og eirðarleysi, sem gagntók allt
og alla, streymdu til borgarinnar í leit að innantómu
skemmtanalífi, gerðust þar rótlausir öreigar, sem lifðu á
gjafakorni og voru auðkeyptir fylgifiskar ábyrgðarlausra
lýðskrumara. Sveitin, hin ítalska sveit með ökrum sínum,
engjum, aldingörðum og vínekrum, grotnaði niður í órækt.
Hin nýja stjórn Octavianusar sá eigi annað ráð vænna
til hjálpræðis en styðja sig við það, sem enn eimdi eftir
af robur Italum, hinurn ítalska kjarna, í þeirri vissu, að
endurfæðing þjóðarinnar yrði að hefjast með viðreisn
landbúnaðarins, orkugjafa heilbrigðrar kynslóðar. Sama
árið og Virgill hóf að ýrkja Ijóð sín um landbúnaðinn,
birtist eftir hinn áttræða fræðaþul Varro ritið De re
rustica. Það rit hafði bæði hagnýtan og siðferðilegan boð-
skap að flytja. Það minnti á þau sannindi, að velgengni
þjóðarinnar fyrrum hefði á landbúnaði reist verið, og
setti fyrir sjónir ánægju og yndi sveitalífsins við ræktun
jarðar og nægjusemi hins heiðvirða manns. Þetta sama
efni tók Virgill nú til meðferðar og ummyndaði það í
skáldlegri stórsýn hins skyggna anda síns. Hann jós líka
hagnýtri þekkingu um viðfangsefni sitt af grískum rit-
um í bundnu máli og óbundnu, en jafnframt af sjóði sinn-
ar eigin reynslu, minnugur bernsku sinnar og umhverfis
hennar. En alla hina margvíslegu fræðslu stillir hann í
samkvæðan kór til vegsemdar Italíu og frjómætti hennar: