Skírnir - 01.01.1944, Blaðsíða 222
210
Ritfregnir
Skírnir
fullkomlega í hugarlund, hversu erfiðissamt þolinmæðisverk þetta
er, nema sá, sem reynt hefur eitthvað svipað að meira leyti eða
minna. Tel ég, að Brynleifur hafi með þessu riti unnið mikið af-
rek, sem seint muni fyrnast.
Sú var hugmyndin í öndverðu, að í riti þessu yrðu æviágrip
helztu Islendinga allt frá landnámstíð til vorra daga og ritið yrði
hliðstætt slíkum ævisagnasöfnum með öðrum þjóðum (Biografisk
Leksikon). En er kostnaðarmanni varð kunnugt, að Hið íslenzka
bókmenntafélag hafði slíka útgáfu í smiðum, varð það úr, að í
þessu riti kæmu aðeins æviágrip þeirra manna, sem voru á lífi
1. febr. 1904 og eftir þann tíma. Var þessi skipting vel ráðin og
fyrir bragðið getur bókin nú flutt æviágrip fjölda manna af öllum
stéttum, er annars hefði eigi verið kostur að geta. Eins og hún er
nú úr garði ger, verður hún merkilegur minnisvarði núlifandi kyn-
slóðar, hið mesta forðabúr af fróðleik um þá menn, sem gert hafa
garðinn frægan hér á landi á fyrstu 40 árum heimastjórnar og
sjálfsforræðis.
Samkvæmt því, sem greint er í formála ritsins, eru í bókina
teknir allir alþingismenn frá 1. febr. 1904 til þessa dags, allir
embættismenn á Islandi á sama tima, hreppstjórar að svo miklu
leyti sem til hefur náðst, og allir bændur, sem hlotið hafa verðlaun
úr styrktarsjóði Kristjáns konungs IX. Sjávarútvegsmenn, skip-
stjórar, stýrimenn, vélstjórar, hafnsögumenn og ýmsir dugandi
bátaformenn og sjómenn eru taldir eftir því, sem til hefur náðst.
Kaupmenn, kaupfélagsstjórar, ýmsir starfsmenn við verzlanir og
verzlunarumboðsmenn eru teknir upp, sömuleiðis iðnaðarmenn og
iðjurekendur margir. Bæjarstjórar og margir starfsmenn bæjar-
félaga. Þá eru og taldir helztu rithöfundar og fræðimenn, skáld í
bundnu máli og óbundnu, listmálarar, myndhöggvarar, myndslcerar,
hljómlistarmenn, helztu veitingamenn, verkfræðingar, arkitektar,
rafmagnsfræðingar, póstar, hæstaréttarlögmenn, lyfsalar, helztu
lögreglumenn, starfandi sérfræðingar í læknastétt, helztu hjúkr-
unarkonur og fáeinar Ijósmæður, leikarar, ráðunautar, ýmsir verk-
stjórar, fiskimatsmenn, bankamenn og blaðamenn.
Auðvitað mál er, að um það má deila, hverja taka skuli í rit
sem þetta, og vex sá vandi eftir því sem ritið er stærra og víðtæk-
ara. En hvað sem því líður, get ég ekki annað en undrazt, hversu
fundvís höfundurinn hefur verið á menn úr öllum stéttum og
hvaðanæva af landinu. Hitt er síður láandi, þótt einhverjir hafi
orðið útundan, sem í bókinni ættu að vera með sama rétti og sumir
aðrir, sem þar eru. Fullkomið réttdæmi í þeim efnum er nálega
óhugsandi, allra helzt í fyrstu útgáfu slílcs rits.
Ekki getur hjá því farið, að villur slæðist með í ritum eins og
þessu, eitthvað af röngum dagsetningum, ártölum, ættfærslum og