Skírnir - 01.01.1954, Blaðsíða 130
126
Guðmundur Magnússon prófessor
Skírnir
þau eru með skurni, sem er afar þykkt. Svo þykkt er það,
að ef hænuegg hefði eftir stærð viðlíka þykkt skurn, væri
enginn vegur fyrir oss til að brjóta það nema með sleggju.
Það er því ekki liklegt, að ungarnir geti brotizt út úr þeim,
eins og fuglsungar gera, enda er því ekki svo varið. Þeir geta
það alls ekki. Þeir losna ekki, nema skurnið grotni sundur, og
til þess þarf sýru. Nú er engin sýra í görnunum, heldur aðeins
í maganum, og ekki geta eggin borizt upp á móti straum,
frá görnum upp í maga. Nei, þau berast auðvitað með straum,
með saurnum, og þau verða að fúleggjum, sem unginn drepst
í, nema því aðeins að þau komist niður í maga á einhverju
dýri og skurnið grotni sundur í magasýrunni. Nú er það
svo að kalla segin saga, að unginn losnar ekki úr eggi i sama
dýri og það átti fæðingarstað, heldur í öðru dýri, meira að
segja annarri dýrategund. En sé það svo heppið að komast
niður í maga á dýri, sem á við það, þá losnar unginn úr
egginu og getur tekið nýjum þroska.
Á unganum eru þrennar klippur — og nálega ekkert annað
sköpulag er sýnilegt — og með þeim grefur hann sig út í
holdið út úr þörmunum eða inn i æðarnar í maga eða görn-
um og berst með straumnum í þeim, þangað til ekki verður
lengra komizt vegna þrengsla, en það er oftast í lifrinni eða
lungum. Þar kastar hann vopnunum, sem hann fæddist með;
nú hefur hann þeirra ekki þörf og verður að blöðrulöguðu
dýri, sem vér nefnum sull, og þeir sitja, þar sem þeir eru
komnir, en smástækka, mismikið eftir því um hverja tegund
bandorma er að ræða. Það eru því til margs konar sullir,
því hver bandormstegund á sinn sérkennilega sull.
En nú mætti spyrja: Hverju er bandormurinn nær, þó
hann — fyrirhafnarlítið — hafi getið af sér ógrynni eggja
og fáein þeirra hafi svo náð því æskilega takmarki að ungast
út og verða að sullum á góðum heimilum? Jú, nokkuð er það
í áttina til að „aukast og margfaldast“, því sullirnir eru með
því eðli, að innan á sullhúsinu myndast bandormshausar, einn
eða fleiri, eftir hverri tegund. Þar er ekki um neina æxlun að
ræða. Sullir eru hvorki karlkyns né kvenkyns. Hausarnir
vaxa eins og frjóangi á kvisti.