Skírnir - 01.01.1954, Blaðsíða 133
Skírnir
Um bandorma
129
líf. Á berum steinum festa sig skófir og mosar, og þeim mun
fremur sem álitlegri er vistarveran. Og hvervetna lifa dýr
á jurtunum eða af þeim, æðri og lægri, eða hvort dýrið á
öðru eða af öðru. Og aðdáanleg eru þau afbrigði, sem dýr
og jurtir hafa tekið til þess að geta lagað sig eftir óhentugum
og margvíslega breyttum lífskjörum. Nægjusemin, sem oft
og einatt kemur fram, er undraverð; og það er augljóst, að
áleitni lífsins er ekki bundin, með tómri eigingirni, við það
að sjá hverjum einstakling fyrir lífsviðurværi, heldur einnig
að sjá fyrir viðkomu, svo að kynið deyi ekki út, þegar líf
einstaklingsins slokknar.
Ekki verður séð, að það sé t. d. hverri einstakri fífuplöntu
gagnlegt að láta hvítt strýið hrekjast í vindinum, en fífu-
kyninu er langa hárið mjög þarflegt. Vegna þess ber vind-
urinn fræið um langa vegi og sáir því á ný svæði; og þó
margt falli í grýttan jarðveg og komi ekki upp, fæst með
þessu móti miklu meiri trygging fyrir því, að kynið haldist við.
Ekki verður séð, að það sé bandorminum sjálfum að gagni,
að liðirnir losni frá samfélaginu og gangi niður af skepnunni,
því það er þeirra bani, en það er bandormakyninu þarflegt,
það veitir meiri tryggingu fyrir því, að eitthvað af eggjunum
komist á staði, sem séu hentugir fyrir viðkomuna.
Þessi dæmi þýðir ekki að telja mörg; þau má taka hvar
sem er úr dýra- og jurtaríki. Hvervetna kemur fram, hve
vel lifandi verum tekst að laga sig eftir umheimi, bæði til
viðhalds sjálfum sér og sínu kyni.
Lífsferill bandorma er eins og liringmynduð keðja, gerð úr
mörgum hlekkjum: Bandormshaus — liðir — egg — ungar —
sullir — bandormshaus. Og af því hlekkjunum í keðjunni er
dreift yfir fleiri íbúðir en eina, verður veila á keðjunni, og
hlekkirnir slitna oft hvor frá öðrum. En svo er áleitni lífsins
mögnuð, að þrátt fyrir veilurnar, ægir af bandormum að
tölu og tegundum. Nálega í hverri tegund dýra eiga band-
ormar sér bústað, frá spendýrum og alla leið niður í fiska,
í sumum dýrategundum einn aðalhlekkur, í öðrum annar, en
aðalhlekkirnir eru auðvitað bandormarnir sjálfir og sullir
þeirra.
9