Skírnir - 01.01.1985, Blaðsíða 152
148
SVEINBJÖRN RAFNSSON
SKÍRNTR
handriti frá um 1400, en handrit þetta hefur m. a. haft að geyma
Eyrbyggju, Flóamanna sögu, Harðar sögu, Gíslasögu, Glúmuog
fleiri sögur. Um miðja 17. öld hefur Þórður Jónsson prestur í
Hítardal haft þetta gamla skinnhandrit undir höndum, líklega átt
það, og gert af því afrit að hluta. Fannig varð m. a. hin svokallaða
Þórðarbók Landnámu til. Þórður prestur sá einnig til þess að
skrifað var úr Eyrbyggja sögu þessa handrits ásamt fleiru. Mela-
bók hefur þessi Landnámugerð verið kölluð af því, að í henni
enda ættartölur frá landnámsmönnum oft á fólki, sem búsett
hefur verið að Melum í Borgarfirði á 13. öld, á konu Snorra
Markússonar, Helgu Ketilsdóttur, á foreldrum Snorra, Markúsi
Þórðarsyni og Hallberu Snorradóttur, og á afa Snorra, Snorra
Magnússyni. Þórður prestur Jónsson í Hítardal dó árið 1670, og
eftir hans dag virðist þetta stóra fornsagnahandrit hafa verið rifið
niður í blöð, en upp úr aldamótunum 1700 tókst Árna Magnús-
syni og samstarfsmönnum hans að reyta saman nokkra illa farna
skækla og skinnblöð úr bókinni á Vesturlandi og er það allt og
sumt sem varðveitt er af henni nú.21
Á þessum skinnblöðum er m. a. niðurlag Eyrbyggju og upphaf
Landnámabókar. Þegar Eyrbyggju sleppir í handritinu, hefst rit
sem nefnt hefur verið „Ævi Snorra goða“, sem ekki er síður
greinargerð um börn Snorra og afkomendur en æviatriði Snorra.
Þessu riti lýkur í miðjum klíðum neðst á síðu skinnhandritsins, og
virðist framhald vanta, en eins og áður greinir er handritið
skert.22
Á skinnblaðinu þar sem Landnáma hefst í handritinu er mikil
ættartala sem upphaf vantar á og lýkur með þessum orðum: „Þor-
grímur sviði átti dóttur Snorra goða“.23 Hefst síðan Melabók
Landnámu. Ef þessi merkilega ættartala er athuguð frekar sést að
yngstu ættliðir hennar er fólk, sem uppi er á síðari hluta 13. aldar.
Það sést einnig að í ættartölunni virðist helst hugað að ættum
Þórsnesinga og Álftfirðinga, þannig er t. d. nafnið Sámur varla
þekkt í öðrum fornættum íslenskum, en þarna eru margir Sámar
nefndir og ættfærðir. Einhverjir yngstu ættliðirnir, sem nefndir
eru í ættartölunni, eru börn Páls prests Hallssonar og Guðrúnar
Sámsdóttur á Geirröðareyri við Álftafjörð, þau Sámur, Hallur,
Snorri (Eyrar-Snorri) og Ingibjörg. Eru þetta Álftfirðingar á síð-