Skírnir - 01.01.1985, Blaðsíða 390
322
HARALDUR ÓLAFSSON
SKÍRNIR
þær ollu oft á tíðum fólksflutningum milli fjórðunga. Menn sem fóru í verið
settust oft að í grennd við verstöðvarnar og festu ráð sitt. Fróðlegt væri að fá
að vita meira um áhrif þessara ferða og hvernig þær hafa stuðlað að breyt-
ingum á búsetu í landinu. Þess eru ýmis dæmi, að fólk hafi tekið sig upp og
farið langar leiðir til að setjast að þar sem sjávarútvegur var með blóma. Svo
virðist sem harðindi hafi einnig ýtt undir slíka fólksflutninga. Hafið var gjöfult
og menn treystu því, að þar væri björg að fá þótt illviðri og óáran ylli skorti á
landi. Ýmislegt bendir til þess, að um 1700 hafi allar forsendur verið fyrir því,
að raunveruleg þorp mynduðust á nokkrum stöðum á landinu, og þá fyrst og
fremst undir Jökli eins og getið hefir verið. Stórabóla sem eyddi mannfólki á
fyrsta áratugi 18ndu aldarinnar olli því, að þessi þróun stöðvaðist og það var
ekki fyrr en undir lok aldarinnar að þráðurinn var tekinn upp að nýju, og þá í
sambandi við verslun og iðnað. Sagnfræðin á ekki að setja of mörg efi mál sitt,
en gaman er að láta hugann leika sér og spyrja: hefðu ekki orðið til allstór
kauptún undir Jökli ef Stórabóla hefði ekki herjað svo óvægilega? Væri ef til
vill þéttýli á íslandi á nokkrum stöðum þar sem nú er fátt um fólk, ef þorp
hefðu þróast þegar á fyrri hluta 18ndu aldar í grennd við gjöful fiskimið?
Þetta eru einungis hugdettur. Þróunin varð önnur oghægari en vænta mátti.
Verstöðvarnar urðu ekki kjarni kaupstaða og það er ekki fyrr en á 19ndu öld,
að veruleg sjávarþorp myndast. Margt hefir verið skrifað um verferðir og lýst
slarkferðum um fjöll ogfirnindi um hávetur. En saga verferða er enn óskrifuð,
og er rit Lúðvíks ágæt undirstaða frekari rannsókna um þennan þátt efnahags-
og félagslífs á íslandi.
Svo nátengd voru störf manna til sjávar og sveita, að fiskveiðar voru lítið
sem ekkert stundaðar að sumrinu. Þá var annatími við heyskap, og einungis
gert hlé á honum til að taka fugl, t. d. kofuna.
Til forna munu fiskveiðar þó hafa verið stundaðar að sumrinu og þá hefir ef
til vill ekki þurft að verja jafn miklum tíma og síðar til að heyja. Fiskgöngur
réðu að sjálfsögðu nokkru en varla öllu um þetta. Veðurfar og árstíðarskipti
mótuðu baráttuna fyrir björginni.
Tæknilegasti hluti annars bindis er kaflinn um árabátinn íslenska. Þar er
bátum lýst frá upphafi byggðar eftir því sem heimildir hrökkva til. Mest er þó
fjallað um bátasmíði á 19ndu öld og nokkuð á hinni 18ndu. Hér er frásögnin
oft á tíðum mjög tæknileg og fjölmargar skýringarmyndir fylgja. Rakin eru
tengsl árabátsins við áraskip á Norðurlöndum og eins getið nýjunga, sem ís-
lendingar lærðu af Norðmönnum og Færeyingum. Þarna er samankominn nyt-
samur fróðleikur um flest það er að bátasmíði lýtur. Gamlar og nýjar ljós-
myndir auka gildi þessa hluta verksins. Þarna er ekki aðeins um að ræða lýs-
ingar á öllu smáu og stóru í tengslum við bátagerð, heldur eru þarna einnig
heiti á öllu því er bátnum tilheyrir: einstökum hlutum bátsins sjálfs, ræði og
árum, segli og mastri, stýri og stögum. Hér eru mörg orð notuð, sem eru að
mestu horfin úr daglegu tali en voru jafneðlileg á sínum tíma og heiti á bíla-
hlutum nú. Það skiptir reyndar engu máli hvar flett er upp í bókum Lúðvíks.
Á hverri einustu opnu er fjöldi heita og orða, sem fæstir þekkja nú. Tökum