Skírnir - 01.01.1985, Blaðsíða 366
298
KRISTJÁN ÁRNASON
SKÍRNIR
meðal flestra þeirra sem láta sig bókmenntir einhverju skipta, einkum yngra
fólks, þess álits að vera sá framúrstefnumaður sem með nýstárlegum stíl
sínum og djörfum hugdettum hefur öðrum fremur megnað að gefa hinum
ruglingslega veruleika okkar tíma þá mynd sem honum hæfir, en einnig hefur
hann verið í augum margra sá myndbrjótur og niðurrifsmaður sem hvað
óvægilegast hefur dregið fram í dagsljósið lágkúru og eymd þess mannlífs sem
skýlir sér á bak við allar þjóðlygar okkar eða þá glansmynd gróandi þjóðlífs
sem við snúum að heiminum og einnig okkur sjálfum á tyllistundum. Að
kunna að meta Guðberg er í sumra augum jafnvel mælikvarði á það, hvort
menn séu yfirleitt í takt við tímann og með á nótunum eða hvort þeir séu ein-
hverjir staðnaðir og gamaldags glópar.
Nú má ef til vill segja, að Guðbergi hafi stundum tekist það svo vel sem hér
var minnst á, að sú spurning hlýtur að vakna hvort það mannlíf sem afhjúpast
í verkum hans sé yfirhöfuð þess vert að því séu gerð skil í mörgum og þykkum
bókum, svo ekki sé minnst á það, að um þær bækur sé skrifað langt mál eins
og meiningin er víst að gera hér. Og ef við höfum það fyrir satt, að fyrr á
tímum hafi viðleitni skáldskapar fremur beinst í þá átt að halda á loft því sem
mátti telja hetjulegast og eftirbreytniverðast í mannlífinu, reisn þess og stærð
í þrengingum og þrautum, og að einnig þá, þegar hin hliðin, böl heimsins og
eymd, var dregin fram, hafi það þá verið gert með því hugarfari að annaðhvort
mætti úr því böli bæta eða sættast við það á einhvern hátt - er þá ekki með
ólíkindum ofurkapp og elja sumra rithöfunda samtíma okkar við að reyta
fjaðrirnar af mannskepnunni og afhjúpa líf hennar á þann hátt að ekki standi
steinn yfir steini?
Þessar og þvíumlíkar hugleiðingar sækja óneitanlega að við lestur nýjustu
bókar Guðbergs Bergssonar, sem heitir „Hinsegin sögur", enda hefur höf-
undurinn hér kosið að skoða hinn mannlega veruleika frá þrengra og afmark-
aðra sjónarhorni en oft áður og síður en svo því, þar sem reisn þess getur orðið
mest. Bókin, sem er tileinkuð ástarlífi íslendinga á öllum sviðum, dregur
nefnilega einkum næringu sína frá þeirri líffræðilegu staðreynd, að mann-
skepnan, eins og raunar önnur æðri spendýr, eykur kyn sitt á ákveðinn hátt,
sem við þurfum víst ekki að gefa neina lýsingu á hér, en hlýtur oft að orka
miður virðulega eða jafnvel spaugilega á þann sem horfir á þær aðfarir utanfrá
og er ekki í sömu vímu og þeir sem að verki standa. Og ekki nóg með það,
heldur virðist móður náttúru stundum hafa orðið á talsvert klúður í hönnun
þess psýkosómatíska búnaðar sem miðar að því að téð hlutverk sé rækt,
þannig að kynhegðun sumra einstaklinga virðist standa í litlu samræmi við
hinn yfirlýsta tilgang að halda við tegundinni, þar sem þeir gera hlutina ekki
„svona“ heldur „hinsegin".
Það er einmitt þetta síðarnefnda sem Guðbergur gerir sér talsverðan mat úr
í bók sinni „Hinsegin sögur“, svo sem nafn hennar gefur raunar nokkra vís-
bendingu um, og þannig ganga ljósum logum í bókinni fyrirburðir eins og tví-
tóla hommar sem eru með kynfærin (bæði) á brjóstinu, þannig að þeir geta
„gert það“ nánast hvar sem er (í strætó, vinnunni og víðar) með því að fara í