Skírnir - 01.09.1989, Side 31
SKÍRNIR
SÁUÐ ÞIÐ HANA SYSTUR MÍNA?
281
Öðru fremur felst þó rómantísk írónía sögunnar í lúmskri
stríðni systurinnar sem sagan gerir að sinni. Þannig standa textinn
og hún saman að íróníunni gagnvart frændanum/sögumanni sem
verður fyrir henni. Hlutverk íróníu er að sundra og er hún and-
stæða myndar (eða metafóru) sem leitast við að sameina, og þá
einkum það sem ekki hefur verið sameinað áður.52 Er frændinn
alltaf að reyna að búa til mynd af sér (sameina sýn og veruleika,
strák og karlmann, búa til karlmannsgervi úr fötum, klæða grös í
peysu), sem systirin brýtur jafnóðum niður og sundrar með íróníu,
án þess að nokkuð komi í staðinn annað en í mesta lagi sameigin-
legur hlátur. Irónía sögunnar er á sífelldum merkingarflótta og því
niðurbrot (dekonstrúksjón) í sjálfri sér. Kallast hún á við óstöðug-
leika myndanna sem ekki eru heldur allar þar sem þær eru séðar.
Skýin berast burt, skuggar líða í „ýmsum myndum yfir engjar og
haga“ (22), ójöfnur hverfa, bjargið steypist hjá, grösin eru ótæm-
andi, svipur systurinnar óráðinn, karlmennskan felst í engu og sag-
an endar hvergi.
Fyrsta sagan
Kenningar Mikhails Bakhtin um einkenni skáldsögunnar minna
um margt á rómantíska íróníu og skáldskaparfræði rómantíkur-
innar.53 Upphaf skáldsögunnar rekur hann til paródíu, eða skop-
stælingar.54 Andstætt epíkinni (söguljóðinu, sagnarituninni) hefur
í skáldsögunni skapast fjarlægð milli tungumáls og raunveruleika.
Þannig sýnir tungumál skáldsögunnar myndir af tungumáli og
sjónarhornum. Þetta gerir skáldsagan m. a. með því að taka í sig
aðrar bókmenntategundir og gera þær að myndum með því að sýna
þær og hafa til sýnis um leið. Þannig eru ljóðin í „Grasaferð“
myndir af Ijóðum sem er ætlað að sýna eitthvað fleira en sig sjálf.
Eitt af megineinkennum skáldsögunnar er margröddunin, sam-
ræðurnar og skoðanaskiptin, andstætt einröddun epíkurinnar (og
ljóðsins). Þannig brotnar skáldsagan niður í kerfi tungumála sem
leikast á, ekkert eitt hefur rétt fyrir sér og enga endanlega merkingu
er að fá. I samræmi við þetta, og andstætt lokun epíkurinnar og
endanlegri þátíð, sýnir skáldsagan þátíð án enda. Öll koma þessi
formlegu einkenni vel heim og saman við „Grasaferð" og róman-
tíska íróníu hennar.