Skírnir - 01.09.1989, Page 32
282
HELGA KRESS
SKÍRNIR
Þá bendir Bakhtin á að með skáldsögunni komi fram ný tegund
af söguhetju. Andstætt hetjum epíkurinnar er hetja skáldsögunnar
ekki hetjuleg heldur hversdagsleg, og er henni ekki lýst sem full-
orðinni og óbreytanlegri, heldur í þróun. Það er einkenni á þessari
hetju, að hún ræður ekki við kringumstæður sínar og umhverfis
hana spretta oft ærsl og karnivölsk tengsl. Hetjan breytist í æringja.
Rekur Bakhtin þessa þróun m. a. til þjóðsagna og alþýðlegrar
fyndni. I „Grasaferð“ er einmitt minnst á slíkar óhetjulegar hetjur,
þegar frændinn stingur upp á að segja systurinni þjóðsögur, þar
sem aðalpersónur eru ýmist Eiríkur í Vogsósum, Björn í Öxl,
Þorgeirsboli, útilegumenn eða skottur af ýmsu tagi. Sjálfur telur
hann sig ekki til slíkra hetja sem sjá má af því að hann puntar sig
mjög fyrir ferðalagið. Systirin er hins vegar „hversdagsbúin" (11).
I rauninni er hann mjög skoplegur í karlmennskutilburðum sínum,
og stundum nánast galgopalegur, eins og t. a. m. í átökunum við
digru Guddu, þar sem hann beinlínis lýsir sér sem óþægum. „Mig
langaði til að svara einhverri óþægð, en þorði það ekki“ (12). Syst-
urinni segist hann svo vera „þægari, en nokkrum manni öðrum á
heimilinu" (11). Best kemur þetta þó fram í hlátri systurinnar sem
fylgir tilburðum frændans og tali um söguna alla. „ „Þú ert skýr-
leiks barn,“ sagði systir mín hlæjandi“ (9), hún fær honum tóman
tínupokann „brosandi“ (13), og „gat ekki gert að sér að hlæja“ (21),
þegar hann langar mest af öllu að heyra kvæði eftir sjálfan sig.
Það er ekki einungis að systirin hlæi að frændanum, hún hermir
einnig eftir honum, þ. e. paróderar hann, og það sem hún paróderar
er tungumálið. Þetta gerir hún strax í upphafi þegar hann er að sýna
henni fjallið sem gnæfir yfir sveitinni: ,,„þú sérð fjallið hérna fyrir
ofan okkur, gáðu nú að“. „Nei, ég sé ekki fjallið, frændi minn
góður" “ (9). Hún hermir einnig eftir honum í síðustu orðum sög-
unnar: „„Þér er, held ég, óhætt að sleppa“ sagði systir mín, og
hermdi eftir mér; „útilegumaðurinn þinn er farinn“...“ (24).
Þannig eiga paródían og systirin í sameiningu síðasta orð sögunnar.
Sjónarhorn systurinnar er ráðandi í sögunni. Fyrir kemur að tal
hennar flæðir inn í frásögnina sem óbein ræða og verður að lýsingu
sögumanns. A fyrri áfangastað þeirra í fjallinu er hún að lýsa fyrir
frændanum víðsýninu af fjallinu og leggja út af því: