Skírnir - 01.09.1989, Page 48
298
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
hnossgæti, þegar búið er að þýða þá á Esperanto", segir Árni Hall-
grímsson.13 Nema hvað hann varð að gefast upp á Selmu Lagerlöf
allt eins þótt hún væri komin á esperantó - og hlaut hún því að vera
allra höfunda leiðinlegust.
Sjötta endurfæðing Þórbergs á sér svo stað á árunum 1932-33.
„Endurfæðist skýrt og skorinort til ritstarfa“,14 segir hann, en það
er samt ekki mjög skýrt á kveðið um hvert þessi endurfæðing beinir
Þórbergi og er raunar um þrjár leiðir að ræða. Hann gæti hugsan-
lega átt við ritstörf í þágu esperantó. Árið 1933 kemur einmitt út
mikið rit hans um esperantó: Alþjóðamál og málleysur og árin þar
á eftir gefur hann út kennslubækur í esperantó.15 Esperantismi
Þórbergs er að sumu leyti eins og trúboð manns sem hefur séð ljós-
ið andspænis málvanda heimsins; hann sér á honum skynsamlega
lausn og fyllist jafnframt guðlegum sannfæringarmætti. Hér sem
oftar fara rökhyggja og átrúnaður saman hjá Þórbergi. Hann gerir
sér grein fyrir þessum trúboðseinkennum og segir í inngangsorð-
um að Alþjóðamáli og málleysum: „Nokkrar línur verð ég að helga
hér þeirri tegund hindurvitnamanna, sem hafa lýst yfir óbeit sinni
á Esperanto fyrir þær sakir, að þeim hefur fundizt esperanto-
hreyfingin bera með sér einhvern trúarkeim." Þórbergur spyr
hvort nokkur hugsjónabarátta sé til sem ekki sé „meira eða minna
gagnsýrð af trúarlegum anda“ og ennfremur hvort það sé „sök
Esperantos, þó að barátta okkar esperantistanna fái kannski stund-
um trúarlegan tón, þegar við eigum í höggi við svo harðsvíruð
trúfífl, svo hnausþykka heimsku, sem velgir ekki við að þverneita
stálhörðum staðreyndum? Og er nokkur snefill af rökréttri hugsun
í því að fráfælast Esperanto fyrir þennan breyskleika okkar esper-
antistanna?“16
Við sjáum að ekki er langt frá trúarstyrk og guðspeki Þórbergs
yfir í baráttuhugsjónir hans. Sem esperantó-frömuður er Þórberg-
ur í hlutverkum postulans og spámannsins. Þetta gildir einnig um
stjórnmálaáhuga hans sem fór mjög vaxandi á þeim árum sem hér
um ræðir. Og þessi sjötta endurfæðing kann að vera vísun til póli-
tískra ritstarfa. Árið 1934 fer Þórbergur til Sovétríkjanna og árið
eftir kemur út bók um þá ferð, Rauða hættan, innblásin af þeirri
sannfæringu að Ráðstjórnarríkin séu á réttri braut. Ragnar Kvaran
skrifaði ritdóm um bókina og gagnrýnir „rómantík“ Þórbergs og