Skírnir - 01.09.1989, Page 54
304
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
byltingarkenndum yfirlýsingum þeirra. Skilmörkum kennisetn-
inga og skáldskapar er ekki sýnd minnsta virðing; fantasían og
pólitískur boðskapur stíga saman dans. Sem stefnuskrá er Bréf til
Láru áreiðanlega jafnróttækt og til dæmis „manífestó“ súrrealism-
ans sem André Breton gaf út sama ár, 1924.
Þetta blandaða form er því mjög opið og það veitir mikið frelsi.
Það er gott dæmi um hið opna verk, sem Umberto Eco nefnir svo,
og merkingarheimur þess er mjög í ætt við það sem Roland Barthes
kennir við Texta sem ekki er seldur undir lögmál og samræmishöft
hins frágengna Verks.28 Þetta opna verk býður upp á sífellda
endurfæðingu og raunar má segja að linnulaust samspil átrúnaðar
og endurfæðingar sé byggt inn í formgerðina. Þannig horfir það
ekki síst við lesanda; til hans hefur verið varpað ýmsum þráðum en
innbyrðis afstaða þeirra virðist stundum full mótsagna, handahófs-
kennd, óáreiðanleg og að óvenjumiklu leyti undir lesandanum
sjálfum komin. Merkingin verður síkvik og það er vandkvæðum
bundið að finna nokkuð sem heitið gæti heildarmerking eða boð-
skapur. Þórbergur gat sér til um að nýstárlegt form Bréfs til Láru
hefði „hamlað boðskapnum“ í því.29 En það má einnig segja að viss
boðskapur felist í formi sem er margradda og hamlar einhlítum
boðskap, til dæmis í pólitískum efnum. Eins og flestar mannskepn-
ur hrjáðist Þórbergur að nokkru leyti af pólitískum eintrjánings-
hætti - án hans gæti líklega ekkert pólitískt starf farið fram í þjóð-
félaginu eins og við þekkjum það - en hinn pólitíski þáttur ræður
ekki einn ríkjum í verkum þeim sem hér um ræðir, heldur verður
að sætta sig við samspil með ýmsum orðræðum sem bjóða lesanda
upp á önnur sjónarhorn.
Virkni og frelsi þessa forms felast ekki í því að rithöfundurinn
geti bara vaðið úr einu í annað, heldur í því að hinar ólíku orðræður
mynda einskonar vegamót innan textans. Hann verður að vissu
leyti eins og líf einstaklings sem sér að hvert augnablik getur opnað
nýtt sjónarhorn, fengið manni nýtt viðfangsefni sem kallar á öðru-
vísi hugsun. Jafnframt skiptir máli hverjir þeir þættir eru sem ofnir
eru saman í verk. Pólitísk og trúarleg deilumál eru áberandi þættir
í hinu opna verki Þórbergs, en þeir eru líka í óvenjulegri sambúð
með öðrum málum. Þessi sambúð byggist ekki svo mjög á heildar-
samræmi, einsog t. d. í hefðbundnum skáldsögum, heldur hvílir