Skírnir - 01.09.1989, Page 56
306
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
ugasta bókmennta-viðmiðið hér á landi. Þetta gerist ekki síst fyrir
tilstilli Halldórs Laxness, sem brýst til valda í þessari grein, ef svo
mætti segja. Laxness skapar ný fordæmi um tilþrif á hinum vígða
vettvangi sagnagerðar, þ. e. a. s. í raunsæislegum samskiptum ein-
staklings og samfélags.
Þórbergur virðist hinsvegar forðast hinar viðurkenndu bók-
menntagreinar; á meðan Davíð frá Fagraskógi og Tómas Guð-
mundsson erja ljóðakurinn og Halldór Laxness og Gunnar Gunn-
arsson rækta garð skáldsögunnar, er Þórbergur að sinna „bók-
menntasmágreinum" sínum. Maður gæti næstum ætlað að meistari
Þórbergur segði einsog Frakkinn Antonin Artaud í fleygum
orðum: Ekki fleiri meistaraverk! I inngangsorðum að ljóðabók-
inni Hvítum hröfnum segir Þórbergur frá því í hálfkæringi að flest
kvæðin séu ort á fimm til tuttugu mínútum: „Eg hefi hvorki haft
aðstæður né löngun til að vanda svo til ljóðagerðar minnar sem
þeirra er siður, er telja skáldlistina lífsköllun sína, aldrei haft tíma
né tækifæri til að sökkva mér niður í skáldlegar hugrenningar, enda
aldrei þráð sæti á skáldabekk.“32 Seinna, í Eddu sinni (1941), segir
þó Þórbergur að væntanlega sé hann eini fútúristinn í íslenskum
bókmenntum auk þess sem hann telur sig „að ýmsu leyti braut-
ryðjanda í öðrum greinum bóklegra mennta bæði í máli og stíl,
efnisvali, efnismeðferð og sjónarmiðum".33 Hann segir vel að
merkja ekki að hann hafi skapað bókmenntaleg stórverk sam-
kvæmt fagurfræðilegum viðmiðum - en það hefði hann vart hikað
við að segja ef honum hefði þótt svo vera. Hið frumlega ritstarf
Þórbergs hefur verið unnið í opnara og sundurleitara formi, eins og
ég hef vikið að.
Ef við hneigjumst til að líta á verk hans með hliðsjón af leiðandi
bókmenntagreinum, þá er einna helst hægt að skilgreina prósagerð
hans með neikvæðu formerki: það verður visst skilgreiningaratriði
fyrir stöðu Þórbergs að hann skrifar ekki skáldsögur. Stefán Ein-
arsson greinir að vísu frá því í bók sinni að Þórbergur hafi árið 1908
skrifað „heila skáldsögu: Veiðifuglana“ (62), en greinir ekki frá ör-
lögum hennar. Arið 1926 skrifar Þórbergur að hann sé með „fimm
skáldsögur í höfðinu (eina upp á 500-600 síður)“.34 Maður getur
ímyndað sér að Þórberg hafi ekki fýst að leggja metnað sinn á vog-
arskálar bókmenntagreinar sem hafði fest rætur og markað sér