Skírnir - 01.09.1989, Page 66
316
ÞÓRIR ÓSKARSSON
SKIRNIR
Þetta viðhorf Gunnars, að láta lesendum alfarið eftir að túlka rit-
verk sín, kemur vel fram í ræðu sem hann flutti á Listamannaþingi
árið 1942. Þar sagði hann m. a.:
Þótt ég ætti líf mitt að leysa, væri mér gersamlega ómögulegt að gefa neina
fullnægjandi skýringu á því athæfi mínu að rita bækur og þá ennþá síður á
hinu, hversvegna ég rita bækur mínar eins og ég geri.6
En þó að Gunnar segðist engar skýringar geta gefið á sögum sínum
er Ijóst að hann var mjög meðvitaður höfundur og að eðli frásagn-
arlistarinnar var honum ofarlega í huga. Þannig lagði hann mun
meiri áherslu á formþætti skáldsögunnar en flestir íslenskir rit-
höfundar sem honum voru samtíða.
Vikivaki ber gott vitni um áhuga Gunnars á frásagnartækninni.
Sagan fjallar beinlínis um eðli skáldskapar, einkum um vandamál
þess sem segir sögu. Greint er frá erfiðleikunum sem fylgja því að
þurfa að samsama sig yrkisefninu, en standa um leið í nægilegri
fjarlægð frá því til þess að heildarmynd atburðanna komi í ljós. Hér
er jafnframt glímt við tungumálið og hugleitt hvernig hægt sé að
klæða atburði, sem falla utan við hversdagsreynslu manna, „orða-
flíkum, ofnum taugum aljarðnesks veruleika" (ll).7 Þannig er
Vikivaki fyrst og fremst saga um sögu.
Þetta umfjöllunarefni hefur að sönnu gegnsýrt íslenskar bók-
menntir síðustu áratugi. Nægir hér að minna á skáldsögurnar
Kristnihald undir Jökli eftir Halldór Laxness, Hreiðrið eftir Olaf
Jóhann Sigurðsson, Sögu af manni sem fékk flugu í höfuðið eftir
Guðberg Bergsson og / sama klefa eftir Jakobínu Sigurðardóttur.
Allar þessar sögur snúast um sömu eða svipuð vandamál og hér
hefur verið drepið á. Það vekur hins vegar athygli að slík vandamál
skuli hafa brunnið á rithöfundi í upphafi fjórða áratugarins, á tím-
um kreppu og þjóðfélagslegrar skáldsagnagerðar, þar sem krafan
um raunsæi og boðskap þokaði öllu öðru til hliðar.
Hér sem oftar var Gunnar Gunnarsson einfari í skrifum sínum
og trúr því viðhorfi sínu að listin sé fremur tæki mannsins til að
öðlast skilning á sjálfum sér en þjóðfélaginu; „listamaðurinn og
þjóðfélagið eiga vart leiðir saman, nema óleiðir sé,“ sagði hann eitt
sinn.