Skírnir - 01.09.1989, Síða 69
SKÍRNIR BÓK ÁN BORGARALEGS ÖRYGGIS
319
Þó að Vikivaki grundvallist að hluta til á vel þekktri, íslenskri
draugasögu, sögunni af Möðrudalsprestinum,13 er hann engin
venjuleg draugasaga. Andstætt slíkri sögu, þar sem yfirleitt er tekin
skýr afstaða til þess trúlega og ótrúlega, rökræna og órökræna,
heldur sagan öllum möguleikum opnum. Það er ekki síst þessi
margræðni sem brýtur gegn reglum epískrar frásagnar og gerir lest-
urinn ruglingslegan, enda kvörtuðu danskir gagnrýnendur sáran
yfir henni. Sagan fær á sig yfirbragð furðusögu, jafnvel hálfgerðrar
vísindaskáldsögu.
I Vikivaka er lítil áhersla lögð á atburði eða fléttu. Þvert á móti
er augunum beint að persónum sem standa frammi fyrir tilteknum
aðstæðum. Þessar persónur eiga það margar hverjar sameiginlegt
að vera klofnar eða óheilar manneskjur. Þær bera tvískipta grímu
eða persónu, það sem Friedrich Nietzsche kallaði Janusarandlit.
Um þessa persónu og áhrif hennar á nútímaskáldsöguna hefur
Franz Kuna m. a. sagt:
I nútímaskáldsögunni birtist best hugmynd Nietzsches um Janusarandlit
nútímamannsins, sem er dæmdur til að lifa harmrænni tilveru. Viðleitnin til
að nema og veita aftur slíka sýn á mannlega tilvist hefur ýtt undir þá til-
hneigingu að nútímaskáldsagan fái sjálf Janusarandlit og verði þversagna-
kennd, og gert það að verkum að margir nútímahöfundar nota harmrænar
eða harmskoplegar goðsagnir sem grundvallarmynstur eða fléttur sagna
sinna.14
Það sýnist vel þess virði að skoða Vikivaka í ljósi þessara orða, og
ekki er ósennilegt að þau séu vel til þess fallin að skýra ýmsa mikil-
væga þætti í formgerð sögunnar. Ekki aðeins ber höfuðpersónan,
Jaki Sonarson, mörg einkenni Janusar Nietzsches, eins og síðar
verður sagt betur frá, heldur er sagan sjálf í senn klofin og þver-
stæðukennd. A eina þverstæðu Vikivaka, sem tengist orðum
Kuna, er reyndar drepið strax í upphafsorðum sögunnar, en þar er
talað um „hinar grátlegu, að ekki sé sagt grátbroslegu furður“
bókarinnar (5) - „De mærkelige og tragiske for ikke at sige tragi-
komiske Begivenheder“.15
Líkt og einn danski gagnrýnandinn kvartaði yfir, skortir söguna
þannig heildstætt yfirbragð hins „fullburða" verks. Hugsunin er
ruglingsleg og samsetningin eftir því: