Skírnir - 01.09.1989, Page 71
SKÍRNIR BÓK ÁN BORGARALEGS ÖRYGGIS
321
3. Frásagnarháttur
Frásagnaraðferð og sjónarhorn skáldsagna skipta miklu máli til
skilnings á þeim. Þetta á sérstaklega við um óhefðbundnar sögur
eins og Vikivaka, þar sem fullkomlega er vísað á bug kröfunni um
að höfundur geri allt sem trúverðugast, svo að lesendur geti lifað
sig inn í frásögnina og gleymt því að þeir eru að lesa bók.
I Vikivaka er slíkri blekkingu ekki fyrir að fara. Lesendur eru
stöðugt minntir á að þeir eru að lesa texta sem skrifaður er með til-
tekin markmið í huga. Að formi til er sagan fyrstu persónu frásögn,
en andstætt flestum slíkum sögum er ekki um einn sögumann að
ræða heldur tvo. Þannig er sjónarhornið breytilegt, tvísýnt. Ann-
ars vegar er rithöfundurinn Jaki Sonarson sem er í senn aðalper-
sóna sögunnar og frásagnarmiðja. Hins vegar er ónafngreindur
„útgefandi“ sögunnar. Þessi persóna stendur mitt á milli lesenda og
Jaka, tekur aldrei beinan þátt í atburðarásinni, en leitast iðulega við
að útskýra eða túlka það sem gerist, sýna atvik sögunnar eins og
þau komu honum fyrir sjónir eða miðla upplýsingum sem Jaki seg-
ir ekki frá.
Jaki Sonarson er ekki sú guðlega vera sem höfundar oftast eru.
Þvert á móti er hann aðeins ein af mörgum persónum sögunnar.
Hann ræður engu um það hvernig atburðir þróast eða persónur
haga sér. Og sjálfur er hann aðeins „teningur á taflborði tilviljunar“
(28); „leiksoppur ægivalds, er beitti [. . .] sjónhverfingum og öðr-
um tálskynjunum" (51); „Égvar leiddur á götu, leiddi engan“ (10).
Einu yfirburðir hans yfir aðrar persónur felast í því að hann skrifar
söguna og getur þannig lagt mat á þá undarlegu atburði sem hann
upplifir og leitast við að útskýra fyrir sjálfum sér og öðrum. Heitið
sem Jaki gefur sögu sinni er „Skrýtin saga en sönn“ (6).
Ur yfirburðum Jaka er hins vegar verulega dregið, ekki aðeins
með ummælum hans sjálfs um það hversu erfitt sé að skrifa um at-
burði sem hann skilur vart sjálfur, heldur einnig með yfirlýsingum
hans um takmarkanir eigin skynjunar:
Ytri og innri sjónum mínum var meira en lítið ábótavant, hlaut ég að álykta.
Hversu oft hefur það ekki vakið mér undrun og hrellt mig, að vera aðeins
úr fjarlægð þess megnugur að skoða, skilja og sundurgreina hvort heldur