Skírnir - 01.09.1989, Síða 72
322
ÞÓRIR ÓSKARSSON
SKÍRNIR
dauða hluti eða lifandi verur. Hafi ég mann í orðfæri eða hlut handbæran,
hverfur mér aðalkjarni verundar þeirra: veruleiki sá hinn innsti, er einn
skiptir máli. (62-3)
Og fljótlega eftir að sagan hefst verður Jaki svo snar þáttur atburð-
anna að hann missir alla yfirsýn. Víða má jafnvel greina skyldleika
við list súrrealismans.18 Meðvitund og rökleg hugsun Jaka verða
undir í glímunni við dulvitundina. Allar gáttir hugans opnast, en
skynjunin þenst út og öðlast einhvers konar ofurnæmi. Lesendur
verða til dæmis vitni að því þegar Jaki hverfur sjálfum sér eða um-
myndast í nýja og framandi persónu í veggspeglum sundhallar
sinnar þar sem uppvakningarnir eru að baða sig.
Þarna í djúpum veggspeglanna beið mín ný hrelling- um stund gleymdi ég
jafnvel laugargestunum: hvað var orðið af sjálfum mér?
Múgur og margmenni auk einstakra líkamshluta síendurspegluðust í
ómælisdjúpum, en á húsbónda örlaði hvergi. Annað ólán mitt og skelfing
moltnaði og varð að engu samanborið við það, að ég var horfinn: sjálfur
týndur sjálfum mér. Bráðtekinn sótthita athugaði ég sviðið - árangurslaust.
Gat verið, að ég væri hvergi nærri? . . . Nema - öldungurinn þarna utan
aðalþyrpingarinnar? - gamall maður, hvítur fyrir hærum, gráskeggjaður?
. . . Átti það að vera ég?
Reikandi í spori nálgaðist ég næsta spegilflöt - áttaði mig þá fyrst, er
öldurmennið og ég rákum saman ennin. (59)
Órökrænar lýsingar eins og þessi gera það að verkum að lesendur
eiga oft erfitt með að átta sig á gangi mála. Auk þess gefa þær frá-
sögninni iðulega martraðarkenndan svip. Sagan verður þó aldrei
óhugnanleg. Ljótleiki, afskræming og dauðastemmning vega sífellt
salt við fegurð, samræmi og líf, og skelfingin fær mótvægi í ljóð-
rænum stíl sögunnar, skopi og sjálfsháði sögumanns. Afleiðingin
er ruglingslegur og mótsagnakenndur veruleiki, þar sem kvíði og
öryggiskennd, gaman og alvara, skiptast á eða blandast saman.
Þessar mótsagnir sýna vel stöðu Jaka í frásögninni. Hann er ýmist
á valdi atburðanna eða stjórnandi þeirra.
Enn einn þátturinn sem verður til að draga úr yfirburðum Jaka
er návist „útgefanda" sögunnar. Alls fimm sinnum ryðst hann inn
í söguna til að útskýra, staðfesta, eða það sem oftast er, draga í efa
atburðina sem sagt er frá: „Að sagan sé skrýtin fer ekki milli mála;
sanngildið aftur á móti.. . En nóg um það“ (6).