Skírnir - 01.09.1989, Page 74
324
ÞÓRIR ÓSKARSSON
SKIRNIR
Hugleiðingar um þessi atriði verða grundvöllurinn að sjálfsdómi
Jaka. Sá dómur er strangur. Hann hefur brugðist bæði sem maður
og rithöfundur. Ekki aðeins er lífið orðið honum tilbreytingar- og
tilgangslaus ávani. Með bókum sínum hefur hann gert sjálfan sig að
útlægum og ómerkilegum seiðskratta sem sífellt snýr út úr, skrum-
skælir og afbakar veröldina.
Dómshugmynd á borð við þá sem fram kemur í Vikivaka hefur
sett mark sitt á stóran hluta nútímabókmennta. Einstaklingurinn
stendur andspænis ópersónulegri og framandi stofnun, sem oftar
en ekki er hann sjálfur, í senn dómari og sakborningur. Orsök
þessa sjálfsdóms er ekki síst vitundin um að hafa brotið gegn sjálf-
um sér og öðrum, en þora ekki að horfast í augu við það.
Nauðaómerkilegar tilviljanir valda því að líf Jaka hrekkur úr
föstum farvegi sínum. Beinlínis eða óbeinlínis kallar hann upp-
vakningana, „hina útvöldu“, til lífsins og gerist sjálfur persóna í
undarlegum sjónleik. Þar renna ímyndun og veruleiki saman í eitt
og mynda nokkurs konar yfirraunveruleika sem er í senn háður og
óháður tíma og rúmi. A þessu leiksviði er ekkert hæli og þaðan
finnst engin undankomuleið. Hér er maðurinn stöðugt ofurseldur
öflum sem eira engu, ósveigjanlegum örlögunum.19
Andspænis uppvakningunum stendur Jaki fullkomlega ráð-
þrota. Hvað á hann að gera við þá? Afhenda þá mönnunum eða
guði? Hann velur seinni kostinn, til þess að koma í veg fyrir að
stundlegt og eilíft, veruleiki og skáldskapur, renni saman. Fyrst í
stað reynir hann að einangra uppvakningana á Fokstað. Síðar, þeg-
ar hann sér að ekki er hægt að hafa hemil á þeim, grípur hann til
þeirra örþrifaráða að senda þá upp gullinn stiga skáldskaparins, „út
í bláinn“, á vit ókunnrar framtíðar - og ókunnra lesenda. Þar með
er stefnt að hreinni list.
En uppvakningarnir valda Jaka einnig annars konar erfiðleikum.
Þessi klaufalega samsetti hópur, sem þrengir sér bæði inn í ytri
heim hans og hugarheim, er ólíkur öllu því sem hann á að venjast.
Hann á hvorki heima í tækniveröld nútímans né er þess konar per-
sónusafn sem skáldsagnahöfundur með listrænt markmið getur
haft not af.