Skírnir - 01.09.1989, Síða 75
SKÍRNIR BÓK ÁN BORGARALEGS ÖRYGGIS
325
Gjaldgeng saga yrði ekki af þeim sögð. Ósamstæð, sem lífið sjálft í nepurð
sinni og nöturleik hlutu þau, sem listrænt efni að molna, jafnvel í snillings-
höndum. Sem uppistaða í bók minntu þau á auðnirnar hér innar af, naktar
og nytjalausar, enda þótt glitofnar ofanljósi gagnslausra daga - ögurljóma,
sem á blöðum hvaða bókar sem er, er ofaukið og utangátta, óáþreifanlegur
og vandbundinn í orð, svo vel fari. (146)
Hér er í raun og veru komið að grundvallarmótsögn allrar listar,
vandamálinu að sætta röklausan, ólistrænan og illa skipulagðan
veruleikann og rökrænan, listrænan og vel upp byggðan heim
skáldverksins. Geta persónur og atburðir skáldverks verið raun-
veruleg? Geta raunveruiegir atburðir eða menn eignast samastað
í skáldverki?
Eina leiðin til að ná sáttum milli þessara andstæðna virðist vera
sú að leita á vit skáldskaparins í tilverunni, en þróa um leið tækni
til að lýsa veruleikanum á sem raunsannastan hátt. Þessu verður
hins vegar ekki náð með því að standa ofan og utan við lífið, líkt og
almáttugur stjórnandi. Það eina sem dugir er að gefa sig lífinu full-
komlega á vald: „Þá fyrst, er blóði strokkað blek verður blóð á ný,
öðlast orðið líf“ (163). Þetta lýkst upp fyrir Jaka þegar hann tekur
að fylgjast með uppvakningum sínum. Þar sér hann hvernig list og
líf fléttast saman í eina órofa heild. Jafnvel hversdagslegur starfi
eins og að gæta sauðfjár getur fengið á sig skáldlegt yfirbragð hjá
þeim manni sem lifir sig inn í hann.
Kindum hafði ég haft gaman af frá unga aldri, en það hafði ekki hvarflað að
mér fyrr en þarna, að hver rolla er í raun og veru tifandi ferskeytla, að ullar-
lagðar liðast í líking við hendingar og hljóðstafi, að vígindi hornanna minna
einna helzt á sólþíðar öldur, sumarsléttar . . . (168)
Það er þessi skynjun sem veldur því að viðhorf Jaka til tilverunnar
breytist. Aður var hann eins og veiðimaður sem leggur bráðina upp
í hendur neytenda. Nú verður hann sá sem fórnar sjálfum sér í þágu
annarra, grjót sem höfuðskepnurnar mala uns það er orðið að fínni
gróðurmold þar sem komandi kynslóðir rækta sannleikann.
Þannig gefur Jaki sig sögu sinni algjörlega á vald, skoðar sig ekki
lengur sem einstakling óháðan öðrum mönnum, heldur sem hluta
af heild. Þegar sagan er fullbúin er hlutverki sögumannsins lokið,