Skírnir - 01.09.1989, Page 81
SKÍRNIR
í GUNNARSHAUGI
331
til hefnda eftir bændur sína, en Hallgerði á Hlíðarenda kemur slíkt
ekki til hugar, enda á hún sjálf þátt í falli Gunnars, og síðan hrekur
Rannveig hana burt af bænum. Aður en hefndir komi fram verður
undarlegur fyrirburður í Fljótshlíð, og er honum lýst á þessa lund:
Sá atburður varð að Hlíðarenda að smalamaður og griðkona ráku fé hjá
haugi Gunnars. Peim þótti Gunnar vera kátur og kveða í hauginum. Fóru
þau heim og sögðu Rannveigu móður Gunnars atburðinn, en hún bað þau
segja Njáli. Þau fóru til Bergþórshvols og sögðu Njáli, en hann lét þau segja
sér þrem sinnum. Síðan talaði hann lengi hljótt við Skarphéðin; Skarphéð-
inn tók öxi sína og fer með þeim til Hlíðarenda. Þau Högni og Rannveig
tóku við honum allvel og urðu honum fegin mjög. Rannveig bað hann vera
þar lengi og hann hét því. Þeir Högni gengu út og inn jafnan. Högni var
maður vasklegur og vel að sér ger og tortryggur; þorðu þau eigi af því að
segja honum fyrirburðinn.
Þeir Skarphéðinn og Högni voru úti eitt kveld fyrir sunnan haug
Gunnars. Tunglskin var bjart en stundum dró fyrir. Þeim sýndist haugur-
inn opinn og hafði Gunnar snúist í hauginum og sá í móti tunglinu. Þeir
þóttust fjögur ljós sjá brenna í hauginum og bar hvergi skugga á. Þeir sáu
að Gunnar var kátlegur og með gleðimóti miklu. Hann kvað vísu og svo
hátt að þó mátti heyra gjörla þó að þeir væru firr:
Mælti ’:'dólga deilir,
dáðum rakkur, sá er háði
bjartur með bestu hjarta
benrögn, faðir Högna.
Heldur kvaðst hjálmi faldinn
hjörþilju sjá vilja
vættidraugur en vægja,
val-Freyju stafur, deyja -
og val-Freyju stafur deyja.
Síðan laukst aftur haugurinn. „Mundir þú trúa,“ segir Skarphéðinn, „ef
aðrir segðu þér?“ „Trúa mundi eg, ef Njáll segði mér“ segir Högni, „því að
það er sagt að hann ljúgi aldrei.“ „Mikið er um fyrirburði slíka,“ segir
Skarphéðinn, „er hann sjálfur vitrast okkur að hann vildi heldur deyja en
vægja fyrir óvinum sínum og kenndi hann okkur þau ráð.“ (192-4)
Hér eins og víðar í Njálu er mikið um að vera í skömmu máli, og
þó verður enginn hörgull á hugmyndum. Þátturinn hefst með
óljósu tilviki: ónefndu vinnufólki á Hlíðarenda þykir sem Gunnar
sé kátur í haugi sínum; slíkur fyrirburður bendir til ákveðinna