Skírnir - 01.09.1989, Page 89
SKÍRNIR
í GUNNARSHAUGI
339
hve mikið hún hefur af sundurleitu efni sem komið er úr bókum.
Eins og Einar Olafur sjálfur hefur manna best skýrt, þá er frásögn-
in af draumi Flosa (133. kap.) sniðin eftir þætti einum í Díalógum
Gregoríusar mikla.19 Og Dalaferð Gunnars (22. og 23. kap.) mun
vera sköpuð eftir fyrirmynd í Flóres sögu og Blankiflúr.20 Engin
ástæða er til að ætla að slík atriði hafi verið tengd þeim Flosa og
Gunnari í munnlegum arfsögnum, heldur bera þau vitni um kynni
hins hugmyndafrjóa Njáluhöfundar af útlendum letrum. Einar
Ólafur hefur einnig dregið athygli að helgisagnaefni sem höfundur
hefur notað sér „svo sem frásagnir af draumi Kolskeggs (81. kap.),
vígi Lýtings (106) og uppgrefti Njáls".21 Hitt er þó ekki síður
mikilvægt í þessu sambandi hve hugstæð Njáluhöfundi hafa verið
ýmiss konar fræði af innlendum toga og hve snilldarlega honum
tekst að gera sundurleitt efni að lífrænum þáttum í mannlýsingum.
Vísan í Gunnarshaugi er einmitt eitt af mörgum atriðum sem höf-
undur hefur þegið úr heimildum sem vörðuðu ekki fyrirmyndir
þess fólks sem byggir Njálu.
Eins og getið var hér að framan, þá mun vísan í Gunnarshaugi
upphaflega hafa verið herhvöt, enda er ekkert atriði í henni sem
bendir til hefnda sérstaklega. En þegar litið er á haugsþáttinn í
heild, þá getur fáum dulist að hann sé undanfari hefnda. Tilgangur
þáttarins skýrist þegar hann er borinn saman við hliðstæða frásögn
í Göngu-Hrólfs sögu. Sú saga hefst með því að Hreggviður kon-
ungur réð fyrir Hólmgarðaríki, „er sumir menn kalla Garðaríki“,22
og fellur í orrustu fyrir þeim Eiríki konungi og félögum hans,
Þórði Hléseyjarskalla og Grími ægi, en sögu lýkur á þá lund að
óvinum Hreggviðs hefur verið rutt úr vegi og dótturmaður hans
hefur verið „til konungs tekinn yfir allt Garðaríki með ráði kon-
ungsdóttur og annarra ríkismanna" (459). Göngu-Hrólfs saga í
heild er því hefndarsaga; tiltekin hetja er drepin við upphaf sögu,
og áður en frásögn er úti, þá hefur valdaráni verið refsað til hlítar:
dóttir konungs og eiginmaður hennar hafa rekið þeirra harma sem
gerðir voru í þriðja kafla sögunnar. Enginn dauðlegur maður veit
hvenær Göngu-Hrólfs saga var ort, og hér skal ekki getum að því
leitt hvor sé eldri, hún eða Njála. Hér verður því ekki reynt að
skera úr þeim vanda hvor kunni að hafa haft áhrif á hina, enda skal
ávallt gera ráð fyrir því að slíkur skyldleiki kunni að stafa frá ritum