Skírnir - 01.09.1989, Blaðsíða 94
344
HERMANN PALSSON
SKÍRNIR
stæðu hlutverki og burtstöng Hreggviðs í Göngu-Hrólfs sögu, en
slíkir gripir eru jafnan vandhæfir. Rannveig bregst illa við þegar
hún heyrir að einhver hafði tekið atgeirinn niður svo að „söng“ í
honum, enda hafði hún kveðið svo á að sá einn skyldi á honum taka
sern vildi hefna Gunnars. Nú hefst orðræða með þeim Högna og
ömmu hans, og er það gamla konan sem fyrst leggur orð í belg:
„Hver tekur atgeirinn, þar er eg bannaði öllum með að fara?“ „Eg ætla,“
segir Högni, „að færa föður mínum og hafi hann til Valhallar, og beri þar
fram á vopnaþingi." „Fyrri muntu nú bera hann og hefna föður þíns,“ segir
hún, „því að atgeirinn segir manns bana, eins eða fleiri.“ (194)
Lokaorðin í þessu hefndarhjali minna á orð Þorkels í Gísla sögu:
Heyr undur mikið,
heyr örlygi,
heyr mál mikið,
heyr manns bana,
eins eða fleiri.27
Þeir Högni og Héðinn fara fyrst til Odda og koma þangað um
nóttina, enda verður ekki sagt að þeir hafi seinað för sinni um of.
„Hrafnar tveir flugu með þeim alla leið“ segir sagan (195), og er
þetta síðasti fyrirburðurinn áður en hefndir koma fram.28 I Odda
vegur Héðinn Tjörva, óþekktan mann, en Högni „rekur atgeirinn
í gegnum“ Hróald sem „hrósaði því að hann hefði veitt Gunnari
banasár“ (191). Vel þykir fara á því að maður hefni sín svo á föður-
bana sínum, en nú er engan veginn öruggt að Hróaldur hafi veitt
Gunnari fjörlöst þótt hann státaði af verkinu. Næst halda þeir fé-
lagar upp undir Þríhyrning, og þar verður Héðinn Starkaði að
bana, en Högni kemur „í mót Þorgeiri og vegur hartn með atgeirin-
um“ (195). Hér er vegið með réttu vopni, og hefndin kemur rétt
niður, enda er sagt eftir víg Gunnars að „Þorgeir Starkaðarson
hrósaði öðru sári að hann hefði sært Gunnar“ (191). Högni vegur
þá tvo menn sern mikluðust af þátttöku í drápi Gunnars, og í því
skyni beitir hann því vopni sem gert hafði Gunnar frægan. Með
slíkum hætti lýkur blóðhefndum eftir Gunnar á Hlíðarenda.
Högni þiggur síðan sjálfdæmi af Merði Valgarðssyni, þótt hann
hefði ekki ætlað sér að sættast við föðurbana sína. Með því að vega