Skírnir - 01.09.1989, Side 108
358
ARTHÚR BJÖRGVIN BOLLASON
SKIRNIR
sem hafi gert germönskum konum lægra undir höfði en skyldi og
sýna svart á hvítu, að fulltrúar hins eðla germanska kvennablóma
hafi haft gallhörð bein í nefjum. Þeir sem haldi öðru fram, aðhyllist
marklaust áróðurshjal jesúíta og annarra kristinna fjandmanna
heiðins dóms. Stallbróðir Kummers, Gustav Neckel, tekur í líkan
streng, þegar hann hafnar því sjónarmiði, að kristindómurinn hafi
„leyst germanskar konur úr ánauð“.19 Hér er reyndar komið að
þætti sem setti mark á allan málflutning germanskra fræðimanna
nasismans. Það var sú skoðun, að kristin trú hafi grafið undan því
siðferði hetjuskapar og hreysti sem ríkti í samfélagi germana á öld-
um áður. Þeir vændu kristindóminn um að hafa innprentað lýðn-
um auðmýkt og aðra lundarlesti, sem hafi beinlínis sogið úr mönn-
um merg og kraft, konum ekki síður en körlum. Kristin trú hafi
gert mennina bljúga og meyra, enda sé kristilegt siðferði sannkallað
„þrælasiðferði" - eins og heimspekingurinn Nietzsche hafi dregið
fram í dagsljósið. Þetta andóf gegn kristindómnum gengur eins og
rauður þráður í gegnum mörg þeirra rita, sem samin voru á þessum
árum. Það á ekki síst við um þau verk, sem norrænufræðingurinn
Kummer samdi og ætluð voru til að stappa stálinu í þjóðernissinna
og brýna þá í þeirri trú, að þýskir væru öðrum kynflokkum æðri.
Kummer var tamt að bera saman „heilbrigt" líf Islendinga á sögu-
öld og vesældóm og lágkúru kristilegs lífernis. A þessa strengi slær
hann t.d. í riti sínu Hlóðir og altari, þar sem hann teflir íslending-
um sögualdar beinlínis fram gegn kirkjunnar mönnum: „Skærir
logar þúsund íslenskra hlóðarelda, sem við þekkjum úr heiðnum
sið, brugðu birtu á mun færri ofbeldisverk, sifjaspell og svik en
lampar margra klaustra og lífsljós ýmissa kirkjufursta.“ Og því
næst kemur rúsínan í pylsuendanum: „Því það er kynstofninn, en
ekki trúin, sem er undirstaða siðferðislögmálsins."20
Þessi orð eru lýsandi fyrir það sjónarmið að hinn arísk-ger-
manski kynstofn sé „erfðafræðileg“ undirstaða siðferðilegrar
breytni.
Hér er ekki ástæða til að orðlengja þau „rök“, sem umræddir
höfundar færðu fyrir þessari kynlegu kenningu. Enda var þess áður
getið, að þau hefðu eiginlega átt að vera hverjum sjálfráðum, alls-
gáðum manni augljós firra. Hins vegar skal að lokum vikið að því,
hvernig þessum rökum var beitt til að „sanna“ yfirburði íslenskra