Skírnir - 01.09.1989, Qupperneq 109
SKÍRNIR AF GERMÖNSKUM EÐALKVINNUM
359
kvenna á söguöld andspænis þeim konum sem sagt er frá í Gamla
testamentinu. Tilgangur þeirra fræða var að nota íslenskar forn-
konur til að sverta og niðurlægja kynsystur þeirra af gyðingaætt-
um. Eitt mergjaðasta dæmi þess er að finna í doktorsritgerð Fritz
nokkurs Arlts, sem prentuð var í Leipzig árið 1936.21 1 ritgerðinni,
sem höfundur kallar Tilraun um kynþáttasálarfrædi (Ein Beitrag
zur Rassenpsychologie), ber hann saman háttalag, álit og sjálfsskiln-
ing þeirra kvenna, sem frá er sagt í miðaldaritum Islendinga og at-
ferli þeirra, sem lýst er á síðum Gamla testamentisins. Ásetningur
þessa eðla „kynþáttasálfræðings“ er að færa sönnur á að hér sé
tveimur ólíkum „kvengerðum" saman að jafna. Það er óþarft að
rekja þau „aðferðafræðilegu rök" sem höfundur reifar í inngangi
sínum. Þau byggja á þeirri skoðun, að sálarlíf, hugsun og skaphöfn
fólks ráðist af kynþætti þess. Með þetta leiðarljós í hendi freistar
Arlt þess að bregða birtu á það gap, sem skilur á milli gyðinga-
kvenna og þeirra, sem gerðu garðinn frægan á íslandi á söguöld.
Þar ber fyrst að nefna, að íslenskar fornkonur nutu ómældrar virð-
ingar karla. Þær voru álitnar styttur og stoðir manna sinna og
standa þeim að flesti leyti jafnfætis. Þær voru bæði stoltar og fríðar
og báru höfuðið hátt, enda færar í flestan sjó.
Þær konur sem frá segir í Gamla testamentinu voru hins vegar
framar öðru dæmdar eftir því, hvort þær voru frjóar eða óbyrjur.
Þær nutu engrar virðingar og voru taldar annars flokks verur. Þrátt
fyrir, að frjósemi væri sá mælikvarði, sem gyðingar lögðu á konur
sínar, var ekki því að heilsa, að þær nytu álits sem mæður. Þvert á
móti var hæfni þeirra til að fæða afkvæmi bölvun sem á þeim hvíldi
og karlmenn urðu vanhelgir af samræði við konur. íslenskir bænd-
ur sögualdar tignuðu konur sínar á hinn bóginn sem mæður og líf-
gjafa afkvæma sinna. Þær voru hafðar í heiðri af sonum sínum, sem
best sést á því, hversu oft þeir leituðu til mæðra sinna, ef á reyndi.
Hvergi er þess getið í íslendingasögum, að litið hafi verið niður á
konur vegna tíðablæðinga. I Gamla testamentinu úir og grúir af
lýsingum, þar sem konur eru taldar óhreinar af þessum sökum.
Lundarfar þessara tveggja kynþátta kvenna er með ólíkum brag. Is-
lenskar konur sögualdar eru gæddar stillingu og kunna að hafa
hemil á tilfinningum sínum. Þær láta sér ekki bregða, þótt sorgin
sæki þær heim og sleppa aldrei fram af sér beislinu, þegar þær kæt-