Skírnir - 01.09.1989, Page 140
390 ÞORSTEINN VILHJÁLMSSON SKÍRNIR
sviðum án þess að til árekstra kæmi við trú þeirra, enda gátu þeir
jafnframt látið sér sólmiðjukenninguna í léttu rúmi liggja.18
Hitt er annað mál, sem Merton bendir réttilega á,19 að púrítanar
gátu ekki séð fyrir að egg vísindanna, sem þeir áttu þátt í að unga
út, reyndist hafa að geyma gauksunga sem dró verulega úr áhrifum
trúarbragðanna á slóðum þeirra og annarra mótmælenda á næstu
öldum. Með öðrum orðum misstu púrítanar síðar vald á steininum
sem fór að velta,20 en slíkt er auðvitað altítt í sögunni.
Þótt hálf öld sé liðin síðan bók Mertons kom út, sýnist mér hún
enn standa fyrir sínu sem grundvallarrit eða eins konar stefnuskrá
hinna úthverfu viðhorfa í vísindasögu. Eg hef því kosið að segja
nokkuð frá henni hér í stað þess að tína til fleiri höfunda sem komu
yfirleitt ekki til sögunnar fyrr en löngu síðar.
Einn angi úthverfunnar er sá að menn hafa í seinni tíð farið að
rannsaka vísindasamfélagið sjálft: vísindamenn á tiltekinni stofn-
un, tengsl manna og samskipti innan samfélagsins og þar fram eftir
götunum. Minna þessar aðfarir óneitanlega stundum á dýrafræð-
inga sem rannsaka hegðun maura í mauraþúfu, utan hvað mig
grunar að maurarnir séu skemmtilegra og frjórra rannsóknarefni -
og auk þess þægari - en vísindamennirnir þegar einblínt er á þá
undir þessu sjónarhorni.21
Mér skilst það þyki einna helst tíðindum sæta í þessum rann-
sóknum að vísindamennirnir reynist ekki eins „skynsamir“ í sam-
skiptum sínum og rannsakendurnir höfðu haldið. Þarf þó varla
mikil kynni af vísindastörfum til að sjá, og finna jafnvel á sjálfum
sér, að vísindamenn eru engu síður mannlegar verur en aðrir. I
störfum þeirra og samskiptum kemur fyrir allt litróf mannlegra til-
finninga ekkert síður en annars staðar í mannlífinu, þó að straum-
arnir liggi kannski stundum dýpra. Þetta er einnig alkunna úr vís-
indasögunni. Eg get því ekki sagt að þessi tegund úthverfu hafi vak-
ið áhuga minn í alvöru enn sem komið er; kannski finnst mér hún
og forsendur hennar eitthvað í ætt við þá hneigð í samtíðinni sem
kennd hefur verið við tómhyggju.22
Vísindin og vísindasagan
Að sjálfsögðu er það bæði áhugavert og áleitið verkefni að íhuga
tengsl vísindasögunnar við þá vísindagrein sem um er fjallað, og