Skírnir - 01.09.1989, Page 142
392 ÞORSTEINN VILHJÁLMSSON SKÍRNIR
atómsinna.25 Ég hygg þó að bæði vísindasaga og vísindaheimspeki
geti oft hjálpað starfandi vísindamönnum til aukins almenns skiln-
ings á viðfangsefnum sínum og þannig stuðlað óbeint að sköpun
nýrra hugmynda, ekki síst á dýpstu miðum. Og ef við viljum líta á
vísindin sem hluta menningarinnar, þá er ljóst að þeir sem þau iðka
ættu að þekkja sögu þeirra.
Ég þekki auðvitað ekki eins vel til í hugvísindum en hygg þó að
þar séu tengsl milli vísindagreinar og sögu hennar öllu nánari en í
raunvísindum: Um leið og menn læra textafræði kynnast þeir sögu
þeirrar fræðigreinar, og svo framvegis. Og í félagsvísindunum, sem
eru yngri, hlýtur sagan að vera samofin fræðunum, meðal annars
vegna þess að verk brautryðjendanna eru enn áhugaverð, vinsæl og
mikilvæg lesning (Freud í sálarfræði, Weber í félagsfræði, Adam
Smith í hagfræði, svo að dæmi séu nefnd). I heimspeki verður þetta
þó einna gleggst, eins og ég hef áður nefnt: Heimspeki án sögu er
nánast óhugsandi.
Boðskapur sögunnar til vísindanna
Eg gat þess áðan að raunvísindin væru oft sett fram sem næst
„ósögulega“ í kennslu. Þessi siður á trúlega rætur að rekja til þeirr-
ar kröfu sem yfirleitt er gerð í vísindum hvers tíma að vinna beri
með það sem best er vitað á þeim tíma: Vísindamanninum ber yfir-
leitt að fylgjast með nýjungum og nota þau tæki og aðferðir sem
eru nýjust en hafa þó fengið nægilega viðurkenningu. Þetta breytir
þó ekki því að sagan hefur mikilvægan boðskap fram að færa við þá
sem iðka vísindi nú á dögum. Þessi boðskapur varðar til dæmis
hvorki meira né minna en sjálft sannleikshugtakið og jafnvel raun-
veruleikann líka.
Ef við horfum til baka til eðlisvísinda í lok 19. aldar, þá blasir við
okkur merkileg mynd sem eimir enn eftir af nú á dögum, að
minnsta kosti í vissum hópum. Margir eðlisfræðingar hölluðust þá
að því að öll helstu grundvallarlögmál eðlisfræðinnar væru fundin
og í rauninni væri ekki annað eftir að gera en að mæla hina ýmsu
fastastuðla náttúrunnar, svo sem ljóshraðann og þyngdarstuðul-
inn,26 með sífellt fleiri aukastöfum. Aflfræði Newtons hafði þá
staðið af sér storma og stríð í tvær aldir og reynst afar vel til að