Skírnir - 01.09.1989, Page 145
SKÍRNIR VÍSINDASAGAN í HEIMI FRÆÐANNA
395
lögmál, því að sumir í þessum skoðanahópi mundu hyllast til þess
að segja að þróun vísindanna sé engum lögmálum háð, heldur sé
það til dæmis nánast tilviljun hvar og hvenær einhver uppgötvun sé
gerð. Þessum skoðunum fylgir venjulega mikil trú á hlutverk snill-
inganna í vísindasögunni.
Mér sýnast fáir halda þessum skoðunum innhverfunnar fram í
ýtrustu mynd sinni nú á dögum, þegar skipulag rannsókna er til að
mynda svo vinsælt og áleitið umræðuefni meðal þeirra sem leggja
stund á vísindi. Eða skyldi skipulag vísinda skipta nokkru máli ef
við getum lítið annað gert en að bíða eftir næsta Einstein? - Þá
verður því varla í móti mælt að þau vísindi sem við viljum kannast
við undir því nafni hafa í reynd orðið til í samfélögum af ákveðinni
gerð og á afmörkuðum skeiðum í sögu mannsins.
Eg fæ ekki heldur orða bundist um það að mér þykir innhverfa
af þessari gerð stundum snúast yfir í þá áráttu sem ég hef áður nefnt
í tengslum við Popper, að vilja predika viðhorf nútímans yfir vís-
indasögunni og grandalausum persónum hennar. Menn hafa þá
kannski fyrst myndað sér skoðun á því, hvernig vísindi séu eða eigi
að vera nú á dögum eða í seinni tíð, og vilja síðan keyra vísinda-
söguna í það mót hvað sem líður heimildum sögunnar og aðstæð-
um hvers tíma. Hins vegar þarf varla nema andartaks umhugsun til
að sjá að það þurfa engan veginn að gilda sömu viðhorf eða reglur
í vísindum nú á dögum og til dæmis á 17. öld þegar vísindin voru
að eflast til virðingar, umsvifa og áhrifa í samfélaginu.
Ein skýringin á því að viðhorf innhverfunnar eru svo áleitin og
útbreidd er að mínu mati sú að baráttan fynr sjálfstœði vísindanna
hefur vissulega verið bæði löng og ströng og kostað miklar fórnir,
allt frá dögum Galíleós.30 Með henni hefur náðst dýrkeyptur skiln-
ingur á nauðsyn þess að grundvallarrannsóknir séu sem óháðastar
annarlegum hagsmunum tiltekinna hópa, bæði í verkefnavali,
vinnuaðferðum og niðurstöðum. En að setja sér markmið er ekki
sama og að ná því, né heldur þarf að vera æskilegt að ná því til fulls,
eða hvað skyldi þá taka við?
Að mínu viti er okkur sem sé alveg óhætt að gangast við því að
hagsmunir samfélags eða hópa muni alltaf fyrirfinnast í vísindum,
þó að við einsetjum okkur að berja niður annarlega hagsmuni í
grunnrannsóknum nútímans, hvenær sem við verðum þeirra vör.