Skírnir - 01.09.1989, Side 146
396 ÞORSTEINN VILHJÁLMSSON SKÍRNIR
Eg get ekki heldur séð hvernig það eigi að geta orðið til tjóns að
gera sér grein fyrir víxlverkun vísinda og samfélags ísögunni, þó að
þar kunni að koma fyrir hagsmunir sem við köllum annarlega nú á
dögum: Sagan bítur hvorki né slær og þeim sem sjá skrattann í
hverju horni er væntanlega hollt að kynna sér framferði hans fram
að þessu.
En segjum nú að við getum sæst á að mikilvægt sé og forvitnilegt
að horfa á vísindasöguna í ljósi hinnar almennu sögu, atvinnuhátta,
efnahagslífs, stjórnmála og tækniþróunar, þó að okkur kunni að
greina eitthvað á um hversu langt skuli ganga í þessu. Skyldu þessi
vensl þá ekki vera gagnkvæm, þannig að vísindin hafi haft mikil
áhrif á hina almennu sögu? Auðvitað, mundu flestir segja, og nefna
síðan tæknina til marks. Og þá erum við komin hættulega nærri
hinu sígilda bitbeini um hrein vísindi og nytjavísindi.
Ekki verður farið langt út í þá sálma hér, en þó vil ég benda á eina
gryfju sem mér sýnast margir góðir menn falla í, meðal annars þeg-
ar fjallað er um þessa hluti í tengslum við ákveðin tímabil og
ákveðnar persónur sögunnar. Þessi gryfja felst í því að ekki er gerð-
ur greinarmunur á ætlun manna annars vegar og hins vegar þeim af-
leiðingum sem störf þeirra kunna að hafa. Þegar rætt er til dæmis
um tengslin milli aflfræði Newtons og atvinnulífs eða jafnvel hern-
aðar á 17. og 18. öld, kemur fyrir lítið að skoða hvað Newton sjálf-
ur ætlaði sér samkvæmt því sem eftir hann liggur skjalfest. Sagan
kennir okkur nefnilega að því merkilegri og áhrifameiri sem mann-
anna verk verða, þeim mun oftar og meir verða þau notuð á ein-
hvern allt annan hátt en höfundurinn sjálfur gat gert sér í hugar-
lund; stundum þannig að hann mundi kalla það algera misnotkun.
Eg kalla þetta í hálfkæringi grafarveltureglu: Því mikilvægari hug-
myndir eða kenningar sem einhver hugmyndasmiður hefur sett
fram, þeim mun oftar mun hann þurfa að bylta sér í gröfinni.
Enn er annað sem mér þykir áhugavert við innhverfu og út-
hverfu í vísindasögu, og það er spurningin um merkingu og gildi
þessara viðhorfa á mismunandi skeiðum í sögu fræðigreinanna.
Meðan vísindagreinin er óþroskuð eins og Kuhn kallar það, og að-
ferðir hennar og hugtök eru skiljanleg öllum þorra manna, þá fer
ekki hjá því að hún sé sjálf bæði innhverf og úthverf í senn, þ. e. að
hún getur haft veruleg áhrif á hugmyndaheim fólks sem leggur þó