Skírnir - 01.09.1989, Page 149
SKÍRNIR VÍSINDASAGAN í HEIMI FRÆÐANNA
399
anleiki sé jafnvel eitt megineinkenni vísinda. Ef þetta er tekið sem
kenning um það, hvernig vísindakenningar séu í reynd, þá er hún
að mínu mati ekki aðeins hrekjanleg sjálf, heldur einnig hrakin, því
að þess eru mörg dæmi úr sögunni að vísindin hafa alls ekki hegðað
sér á þann hátt sem Popper lýsir. Ef hugmynd hans er hins vegar
tekin sem eins konar forskrift eða siðaboðskapur, þ. e. kenning um
það hvernig vísindin ættu að vera, þá verður henni auðvitað aldrei
hnekkt með skírskotun til vísindasögunnar.
En dæmin um áhrif vísindasögu á vísindaheimspeki, þar sem
upptökin liggja sögunnar megin, eru ekki síður áhugaverð. Frægast
þeirra í seinni tíð felst í þeim miklu áhrifum sem rit Thomasar
Kuhns hafa haft á vísindaheimspeki síðustu áratuga.
I heild má segja að þessi áhrif hafi gert mönnum ljóst hversu gíf-
urlega hreyfanleg vísindin eru bæði í grundvallarviðhorfum og að-
ferðum (þ. e. í viðtökum sínum skv. Kuhn). Þannig muni það reyn-
ast skammgóður vermir að líta á vísindin sem kyrrstætt fyrirbæri
og reyna að finna sem næst tæmandi reglur til lýsingar á því eða til
að setja því forskriftir. I stað þess er óhjákvæmilegt að taka til
greina að vísindin eru síkvik: Nýjar vísindagreinar verða til í sífellu
út frá þeim sem áður voru komnar til sögu, nýjar aðferðir koma
fram og aðrar hverfa, og sjálfar kenningarnar eru á hverfanda hveli
eins og allt annað. Flest af þessu fer eftir því sem viðfangsefnið
krefst, jafnframt því sem þekkingu manna á því fleygir fram. Ymis-
legt má einnig rekja til áhrifa frá samfélaginu sem vísindamennirnir
lifa og hrærast í.
Lokaorð
Vísindasagan hefur slitið barnsskónum og rutt sér til rúms í heimi
fræðanna, albúin til nýrra átaka. Hún hefur þegar aukið verulega
skilning okkar á þeirri mikilvægu starfsemi manna sem talin er til
vísinda, sem og á mannlegri hugsun yfirleitt og á þróun hennar.
Meðal annars hefur verið sýnt fram á með sannfærandi hætti að
framvinda vísindanna er ekki eins slétt og felld og menn höfðu
haldið, og að hún er auk þess oft og tíðum háð samfélaginu í kring,
gerð þess, ríkjandi hugsunarhætti og þar fram eftir götunum.
Vísindasagan hefur ýmislegt fram að færa sem skírskotar bæði til