Skírnir - 01.09.1989, Page 162
412
HALLDÓR GUÐJÓNSSON
SKÍRNIR
þróun í lýðræðisátt, sem horfir til þess að ríkið leiti réttlætingar í
fólkinu og mótist af kröfum þess og samsömun við ríkið, hlaut að
fylgja réttur og skylda ríkisins til að skipta sér af öllu sem þegnarnir
gera. Þótt þessar hugmyndir stangist þannig í ýmsu á við hug-
myndina um háskólann sem Universitas studdust þær engu að síð-
ur við raunverulega drætti í starfi háskólanna. Háskólarnir höfðu,
eins og reyndar önnur Universitates, að eigin frumkvæði lagt stund
á ýmis konar þjónustu og fullnægt ýmsum þörfum samfélagsins
alls. Það er þessi þáttur háskólahaldsins sem samfélögin tóku upp
á arma sína. Þessu fylgir það að háskólunum eru settar kröfur og
skilyrði utan frá, og því er það einmitt á sama tíma sem háskóla-
menn fara að gera kröfur um akademískt frelsi.
Sú hugmynd að líta megi á háskólana sem fyrirtœki er enn yngri,
varla eldri en frá heimsstyrjöldinni síðari og líklega helst sprottin
upp í Bandaríkunum. Þótt margir elstu háskólar vestan hafs hafi
upphaflega verið tengdir sérstökum trúarsöfnuðum tóku þeir
aldrei á sig mynd trúarlegra Universitates. Þeir sinntu fljótlega ver-
aldlegum efnum og slitnuðu flestir úr tengslum við safnaðarlíf,
urðu sjálfseignarstofnanir og stóðu sjálfir undir rekstri sínum með
skólagjöldum og gjöfum. Fjárhagslegt eða efnahagslegt sjónarhorn
til háskólahaldsins mótaðist þannig snemma og varð undirstaða
þess að jafnvel háskólarnir sem hin einstöku ríki stofnuðu til að efla
atvinnu- og athafnalíf í ríkinu voru í bland skoðaðir sem fyrirtæki.
Þegar eftirspurn eftir þekkingu og menntun eykst upp úr heims-
styrjöldinni, verður mönnum ljóst hve náin tengsl eru milli fræði-
legrar iðkunar og efnahagslegrar velferðar. Þekking og menntun
verða í raun verslunarvara, en fyrir var grunnur til að líta á samband
háskóla og atvinnulífs og samband háskóla og nemenda eins og
sambandið milli fyrirtækis og viðskiptavina og meta allt háskóla-
starfið til fjár.
A seinustu tveimur áratugum hafa aðrar þjóðir tekið þessar hug-
myndir eftir Bandaríkjamönnum. Um leið fer það í vöxt að há-
skólarnir séu kallaðir til ábyrgðar um gerðir sínar eftir sömu línum
og gerist með fyrirtækjum. Þeir eiga að gæta hagkvæmni í rekstri,
skipuleggja starf sitt eftir þeim markmiðum sem þeir vilja ná, leggja
árangur sinn á skýrar og einfaldar mælistikur og bera hann saman
við tilkostnað, alveg eins og fyrirtæki gera.