Skírnir - 01.09.1989, Síða 174
424
ÁRNI ÍINNSSON
SKÍRNIR
heyja sömu baráttu og við, tala tungum og eiga til að stofna sér og
öðrum - jafnvel okkur sjálfum - í voða með uppátækjum sínum.
Þegar allt er talið má þó sennilega segja að lífvænlegra sé í heim-
inum nú en nokkru sinni fyrr- með þeim fyrirvara þó að þessi sami
heimur er allur óáreiðanlegri og mennirnir dauðlegri. Við stöndum
nú frammi fyrir því að ekki einasta menn geta dáið, heldur vofir nú
yfir okkur sú ógn að Maðurinn getur dáið. Við búum ekki aðeins
yfir mætti til að skaða sjálf okkur og nánasta umhverfi okkar, held-
ur er hægt á tiltölulega skammri stundu að tortíma mannkyni öllu,
sögu þess og menningu, fortíð þess, nútíð og framtíð.
Það sem markar upphaf hinna nýju tíma er að sögn það að menn
fara að líta í kringum sig, skoða heiminn og reisa hugmyndir sínar
um hann á slíkri athugun, en ekki á misjafnlega áreiðanlegum
kennivöldum. Ný heimsmynd kemur til skjalanna, náttúran öðlast
sjálfstæði, virkar og viðheldur sér eftir eigin lögmálum. Jörðin er
ekki miðja alheimsins og maðurinn ekki tilgangur sköpunarverks-
ins. Uppspretta þekkingarinnar, og hennar eina stoð, er sú reynsla
sem við höfum af heiminum, og þær aðferðir sem við höfum til að
draga ályktanir af henni.
Vísindi og tækni eiga síðan að vera hlutlaust verkfæri í höndum
mannsins; verkfæri sem ef rétt er með farið, getur fært honum nýtt
og betra líf, áhyggjulaust líf fullt unaðar og lystisemda- getur losað
hann undan oki umhverfisins og náttúruaflanna, og fært honum ný
tækifæri og nýja möguleika. Tæknin hefur lagt okkur í hendur afl
til að færa okkur í nyt allt það sem náttúran hefur uppá að bjóða.
Við þurfum ekki lengur að láta okkur nægja það sem hrýtur af
gnægtaborði sköpunarverksins, heldur getum við nú sest að sjálfri
veislunni og jafnvel matreitt kræsingarnar að vild. En þessi nýi
máttur, þetta mikla vald, getur einnig leitt ógn og skelfingu yfir
mannkyn. Veisluborðin geta brostið eða forðabúrið spillst. Við
þurfum því að læra að lifa með þessu nýja valdi. Við þurfum að
kunna okkur hóf í lystisemdunum, ef ekki á illa að fara.
En í tækni og vísindum má sjá fleira en glæstar framtíðarvonir.
Þeir eru til sem segja að ef svo fer fram sem horfir, muni tæknin
innan skamms vaxa manninum yfir höfuð, svipta hann völdum og
verða að ráðandi afli á öllum sviðum mannlífsins.