Skírnir - 01.09.1989, Blaðsíða 177
SKÍRNIR
NÝIR TÍMAR
427
ast á við þau. Veruleikinn er settur upp í stöðluð form, magntölur,
stuðla og kvóta, sem unnt er að reikna út og meðhöndla eftir leið-
um „hlutlægra“ vísinda.
Villan sem okkur verður þarna á er sú að sjá ekki útfyrir þann
þrönga ramma vandamála sem unnt er að leysa eftir tæknilegum
leiðum. Tæknihyggjan er þannig, auk þess að vera háttur á að
skoða heiminn, fólgin í því að sjá ekki nema brot af heiminum
öllum. Það ætti að vera hverjum manni ljóst að í heiminum er fleira
að finna en tæknileg úrlausnarefni. Til er aragrúi vandamála sem
falla utan þess ramma. Það þarf hinsvegar ekki að þýða að þau
vandamál séu ekki þess verð að glíma við þau, eða að þær niður-
stöður sem við komumst að í þeirri glímu séu einhverju ómerkari
en aðrar niðurstöður sem við kunnum að komast að. Er ekki veru-
leikinn allur meiri að umfangi en sá veruleiki sem tækninni tekst að
umfaðma? - Við eigum okkur langa sögu sem óhjákvæmilega setur
mark sitt á veru okkar hér. Við búum í einstöku sambýli við aðra
menn, í rótgróinni menningu sem er flóknari en svo að unnt sé að
leggja hana niður fyrir sér í eitt skipti fyrir öll og mæla á alla vegu.
Þessi veruleiki sem umlykur okkur virðist óendanlega flókinn og
fullur af allskyns fyrirbærum sem tækninni tekst aldrei að birta
okkur. Við skipum okkar sess í þessum veruleika, erum bundin
honum á ótal vegu, og hann setur mark sitt á okkur um leið og við
setjum mark okkar á hann. Það er því næsta ljóst að stórir hlutar
veruleikans hverfa í því samhengi sem tæknihyggjan birtir okkur.
Tæknihyggja er því ekki einungis hugsunarháttur, heldur ákveðið
hugsunarleysi, og eins og annað hugsunarleysi sem stundum grípur
okkur mennina, er hún í hæsta máta háskaleg.
Það er áreiðanlega ekki hægt að meðhöndla menningu okkar og
sögu, hugmyndaheim og siðferði eftir leiðum tækninnar, en það
þýðir vitanlega ekki að ekki skuli fást við þessi efni, eða að ekkert
verði um þau vitað. Mörg þeirra úrlausnarefna sem við rekumst á
á þessum sviðum eru slík, að líf okkar yrði vart mannlegt nema við
glímdum við þau. Það er því annað og meira en fánýt tómstunda-
iðj a eða tímaeyðsla að skoða og yfirvega sögu okkar, menningu eða
siðferði - það er nauðsynlegur hluti þess að vera maður.
Það er vandi að lifa lífinu, og sá vandi verður ekki leystur á
tæknilegan máta. Tæknin er þó ekki óvinur sem við verðum að