Skírnir - 01.09.1989, Page 189
SKÍRNIR
ÞARSEM HEIMSPEKI . . .
439
Ekki verður heldur fyllilega ljóst, hvaða þýðingu byltingarhugtakið hef-
ur fyrir vísindalega skynsemi og gildi sannleikshugtaksins almennt. Því að
hvernig geta orðið ósamfelldar breytingar á vitneskju okkar um veröldina
ef allt það var rétt, sem á undan kom, og allt er einnig rétt, sem á eftir
kemur? Hér skiptir miklu máli að hugleiða samfélagsþáttinn, þ. e. hvernig
túlkun á vísindalegum kenningum og niðurstöðum er að einhverju leyti
samkomulagsatriði á hverjum tíma. Nýjar kenningar glíma þar fyrir utan
oft við önnur atriði en þær gömlu og eru því ekki fyllilega sambærilegar við
þær eldri. Þótt ekki væri nema vegna þessa atriðis eins, yrði ætíð erfitt að
steypa efni Heimsmyndar í eitt mót, þegar til umfjöllunar er vísindasaga
sem nær frá forsamfélagi vísindamanna til bernskuskeiðs vísindasamfélaga
við upphaf nýaldar.
V
Vel kemur fram í upphafi verksins, að prestar í fornum samfélögum nálægt
Miðjarðarhafsbotnum voru miklir hvatamenn allrar vísindastarfsemi, t. d.
nákvæmra tímamælinga. Því er ljóst, að trúarleg og vísindaleg hugsun þarf
ekki ætíð að vera á öndverðum meiði. Þorsteinn telur hins vegar að við
upphaf nýaldar letji kaþólska kirkjan vísindastarfsemi, og hámarki nær það
viðhorf með langri athugun á frægri málsókn kirkjunnar gegn Galíleó á 17.
öld („Samt hreyfist hún“).
Nokkur sannleikskjarni felst í áðurnefndri ófriðarskoðun, sé litið á vís-
indamenn og presta sem fulltrúa ólíkra stofnana og þjóðfélagshópa, með
ólíkar heimsmyndir og sannleikshugtök að bakhjarli. Segja má, að vísinda-
menn nýaldar hafi viljað skapa sér aukið athafnarými til að sinna viðfangs-
efnum sínum á kostnað kirkjunnar. Hvað er árangursríkara í slíkri baráttu
en nýtt sannleikshugtak, sem að vísu fjallar að mörgu leyti um önnur
vandamál en áður? Snjall áróðursmeistari eins og Galíleó trúði á mátt skyn-
færa sinna og skynsemi. Hann kallaði á náttúruna sem vitni þegar hann
þurfti á stuðningi að halda til að vinna skoðunum sínum brautargengi. Því
má virða fyrir sér samband vísinda og kirkju á þessum árum í ófriðarljósi,
ef málsatvik eru skoðuð samtímis frá sjónarhóli hugmyndasögu sem og al-
mennrar samfélagssögu í kjölfar siðaskiptanna.
Þrennt virðist undirrituðum, að færa hefði mátt til betri vegar þegar rætt
er um samband trúar og vísinda. I fyrsta lagi hefði mátt koma betur fram,
að sú söguskoðun, að trúarbrögð og vísindi eigi í ævarandi ófriði, hefur eigi
staðist tímans tönn og er mjög mótuð af framfarahyggju og guðleysi síð-
ustu alda. Samkvæmt skoðunum heimspekingsins Auguste Comte átti
mannleg hugsun að ganga í gegnum þrjú þroskastig, þ. e. frá guðfræðilegu
stigi gegnum frumspekilegt til hins „pósitífa" (vísindalega) sem er loka-
stigið. Margir af aldamótakynslóð vísindasagnfræðinga voru undir mjög
sterkum áhrifum þessa „pósitífisma11.11
I öðru lagi hafa síauknar rannsóknir í miðaldasögu og vísindasögu mið-