Skírnir - 01.09.1989, Qupperneq 199
SKIRNIR
HALTU HÁTÍÐ
449
hérlendis sem hefur fengist við íslenska menningu hefur verið innan þessa
viðmiðs, og hefur alltaf verið meira íslensk en fræðileg. Eftirfarandi brot af
skilgreiningu Einars Olafs Sveinssonar á þjóðsögum er ágætis dæmi um
þjóðernissinnaða túlkun á þjóðsögum og íslenskri menningu:
Þetta sjónarmið, að þjóðsögurnar séu munnmælasögur alþýðu, er til
mikils skilnings á eðli þeirra. Nokkra varfærni verður þó að hafa við,
að því er tekur til íslenzkra þjóðsagna. Skriftar- og lestrarkunnátta
hefur verið miklu dreifðari hér á landi meðal allra stétta en títt var
erlendis, og eru bókleg áhrif á þjóðsögur í meira lagi hér á landi og
ekki síður þjósagnaáhrif á bókmenntirnar. Stéttagreining hefur og
verið hér með minnsta móti, og öll menning landsmanna var mótuð
af andstöðunni við útlent vald og útlenda yfirstétt.10
Sjálfstæðisbaráttunni fylgdi ákveðin söguskoðun, sem enn eimir af. Saga
þjóðarinnar fram að því að Islendingar gengust Noregskonungi á hönd var
sveipuð dýrðarljóma, og var Islendingasögum hampað sem skýrum vitnis-
burði um hvílíkir kappar og skáld Islendingar voru að uppplagi. Sumt af
athæfi hinna „sönnu Islendinga“ þjóðveldistímans varð fyrirmynd þess
hvernig íslendingar ættu að breyta. Gott dæmi er „endurreisn“ þorrablóta
ásíðari hluta 19. aldar. Eftirfarandi frásagnir eruúrÞjóðólfiog Norðanfara
árið 1881:
I fornöld voru um miðjan vetur haldnar veizlur eða fagnaðarsam-
komur, og nú hafa ýmsir menn, sem eru í fornleifafélaginu, tekið
upp þann sið. (ÞBL: 71)
Salurinn var tjaldaður fornum tjöldum og skjaldarmerki á
veggjum, öndvegissúlur fornar reistar þar og langeldar á miðju gólfi.
Þegar menn voru seztir undir borð, stóð upp Sigurður Vigfússon og
setti grið með mönnum að fornum sið. Þegar menn höfðu snætt og
borð voru upp tekin, voru auknir langeldar og full drukkin. Fyrst
var drukkið full Oðins, Alföðurs og mælti Sig. Vigfússon fyrir því
og signdi það geirsoddi og bað aðra svo gjöra. Síðan var drukkið full
Þórs og sungið fyrir sæmilega laglegt kvæði eptir Björn Olsen, en
Sig. Vigfússon gerði hamar yfir og bað aðra svo signa fullið. Síðan
var drukkið full: 1. Freys og Njarðar, 2. Braga og 3. Freyju og allra
annarra Ásynja.11 (ÞBL: 73)
Uppúr aldamótum dregur mjög úr þorrablótum í þessum stíl, en með nýrri
þjóðfélagsskipan, sjálfstæði þjóðarinnar, átthagafélögum, veitingahúsum,
og breyttum matarvenjum eru þau endur-endurreist á sjötta áratugnum.
Nú var það ekki „blót að fornum sið“ heldur fyrirbærið „íslenskur matur“
sem gerði fólk rammíslenskt, sbr. eftirfarandi frétt í Morgunblaðinu 6. feb.
1958: