Skírnir - 01.09.1989, Side 202
452
HJÖRLEIFUR RAFN JÓNSSON
SKÍRNIR
upphafi þeirrar 18. og nokkrir húsgangar tengdir þorra, og loks minnafor-
málar, „einskonar staðlaðar tækifærisræður“ (ÞBL: 221) frá 16., 17. og 18.
öld. Hræranlegar hátíðir rekur uppruna og sögu fjórtán daga og tímabila,
sem eiga það sameiginlegt að tengjast páskum og færast með þeim fram og
aftur á árinu“ (HH:7). Um er að ræða lönguföstu, bolludag, sprengidag,
öskudag, dymbilviku, pálmadag, skírdag, langafrjádag, páska, gangdaga,
uppstigningardag, hvítasunnu, þrenningarhátíð, og dýradag. Saga dag-
anna er safn stuttra samantekta um helstu hátíðisdagaþjóðarinnar, og mið-
ar Arni „aðallega við þá daga, sem lengstum voru nefndir í Almanaki Þjóð-
vinafélagsins auk fáeinna árstíðabundinna atburða, sem ekki eiga sér fastan
dag“ (SD:9). Bókin hefst á Eldbjargarmessu, 7. janúar, og henni lýkur á
síðasta degi jóla, þrettándanum, eða 6. janúar. Merkisdagar á mannsœvinni
er um helstu stiklur mannsævinnar, getnað, meðgöngu, fæðingu, skírn,
fermingu, brúðkaup, andlát og útför.
Árni skráir, tímasetur og dregur saman. Hann flokkar viðfangsefnið,
sumt er heiðni, annað kristni og enn annað þjóðtrú. Allt eru þetta siðvenj-
ur. Bækur Árna eru forskriftir að því hvernig Islendingar hafa haldið hátíð-
ir að fornu og nýju. Hann fyllir upp í söguna með hátíðum, og um leið skil-
greinir hann söguna og hvað hefur falist í því að vera Islendingur. Að vera
Islendingur er að halda hátíðir, og bækurnar eru minnismerki um há-
tíðahald á Islandi. Sem slíkar eru þær líka fyrirmynd að því hvernig Islend-
ingar eiga að vera.
Lítið fer fyrir þjóðfélagslegu samhengi hátíðanna, skilnings er oftast leit-
að í ljósi orðsifja og uppruna. Um þetta hagræna og pólitíska tómarúm
hefðanna líða Islendingar, allir jafnir og þjóðlegir og í hátíðaskapi.
V
Árni hefur stundað rannsóknir sínar á hátíðum og ýmsu þeim tengdum
öðru hverju í um nær 30 ár, og hefur viðað að sér miklu efni. Þótt ég sé ekki
alltaf sammála Árna um efnistök þá tel ég að úr bókum hans megi lengi
vinna í átt að betri þekkingu á mannlífi á Islandi. Islendingar eru og hafa
verið eins og hvert annað fólk, þeir hafa búið við ýmis konar félagsleg skil-
yrði og unnið úr veruleika sínum innan ramma þess þjóðfélags sem þeir
hafa þekkt á hverjum tíma. Breyttum veruleika fylgja breytt hugkerfi,
breytt viðmið. Ekki er nauðsynlega um sama skilning á veruleikanum að
ræða þó fólk tali sama tungumál og áður og búi enn á sama stað.14 Fólk er
ekki strengjabrúður hugmyndakerfa á borð við heiðni, kristni og þjóðtrú,
þessi hugtök eru sértekningar sem varna þekkingar á fólki sem hverju öðru
fólki sem hefur vitund sína úr þeim veruleika sem það býr við.15 Þjóðsögur,
rétt einsog þjóðsagnasöfnun, þarf að skoða í samhengi sínu. Það sem er
kallað þjóðtrú er ekki, einsog sumir þjóðfræðingar hafa haldið fram, mis-
skilningur eða skynvillur, eitthvað sem fólk trúir á í myrkri rafmagnsleysis
og sveita fortíðarinnar.16 Þjóðtrú er ekki trú, heldur ýmsar hugmyndir