Skírnir - 01.09.1989, Page 218
468
INGÓLFUR Á. JÓHANNESSON
SKIRNIR
Fagleg færni kennarans, fimi hans [svo!] til starfa, staða hans [!] og
menntun, aðgerðir hans og fræðsla, stofnanalegar forsendur fyrir
gæðum kennslunnar og virkni kennara í starfi, hlýtur að verða næsti
kafli í umbótaskrá íslenska skólakerfisins. Það er ekki eftir neinu að
bíða: lögin, kerfið, stofnanirnar eru til og bíða átaka kennarastéttar-
innar til að glæða þau lífi. Þetta er hennar mál og hennar ábyrgð. Nú
er tími til kominn fyrir kennarastéttina að taka málin í sínar hendur.
Hún þarf að hafa til þess bæði vit og mátt til að greina kennslu-
markmið og aðgerðir, til að marka stefnu um starfsundirbúning og
endurmenntun, til að taka skipan náms í skólunum og skipulag skól-
anna föstum tökum. Hún þarf að taka af skarið um skipan vinnu-
dags, starfshátta, bekkja og námshópa, hún þarf að gera gangskör að
upplýstu sjálfsforræði og starfsfrelsi hvers einstaks skóla. Um þetta
eiga að takast umræður sem kennarastéttin og fulltrúar hennar eiga
frumkvæði að, en ekki skrifstofumenn yfirstjórnarvaldsins sem
hugsa eftir ægiboðum úreltra skipulagshefða. Loks komi að því að
kennarastéttin hafi erindi sem erfiði (bls. 168, úr fagvitundarræð-
unni haustið 1985. Mig minnir að í ræðunni forðum hafi Wolfgang
nefnt að kennarar gætu þurft að bíða eftir viðunandi uppskeru í ein
tíu ár).
Vissulega tel ég að „kennarastéttin og fulltrúar hennar“ eigi að hafa
frumkvæði að umræðum um markmið menntunar. En er það ekki einnig
mál barna, foreldra og þegna þjóðfélagsins yfirleitt? Menntun er ekki
einkamál kennara, fremur en heilbrigði er einkamál lækna. Menntun og
heilbrigði eru mál allra. Þau eru stórmál sem ekki má flækja í sérfræðilegt
tungutak.
Vald skrifstofumanna er heldur ekki bara vald skrifstofumanna sem
vöðlast um með kjánalegar reglur sem þeir e. t. v. misnota í ofanálag. Það
er þjóðfélagslegt vald sem er alls ekki „úrelt“. Það er raunverulegt, við finn-
um oft fyrir því og kannski er það, þegar allt kemur til alls, mun nútíma-
legra en það vald sem kennarastéttin gæti öðlast. Hver veit hvert þjóðfélag-
ið stefnir? A níunda áratugnum hefur það stefnt í íhaldsátt.
Eg kem enn og aftur að því að hina pólitísku vídd vantar svo mikið í alla
þessaröksemdafærslu. Áminning Olafs H. Jóhannssonar skólastjóraí um-
fjöllun um bók Wolfgangs er athyglisverð. Hann segir:
Þá er þess einnig að gæta að vegur og virðing starfsstéttar ræðst alls
ekki eingöngu af faglegri hæfni hennar. Líkur benda til að kennarar
í enskum barnaskólum hafi aldrei fyrr verið jafn faglega hæfir sem
stétt, samt stendur virðingarvog hennar [ensku kennarastéttarinnar]
lágt (1988, 27).