Skírnir - 01.09.1989, Síða 226
476
SKÍRNIR
JÓN SVEINBJÖRNSSON
efni sem byggist beint og óbeint á Biblíunni, og um biblíutilvitnanir í
norrænum ritum.
Kaflinn um Stjórn (3. kafli bókarinnar) og rannsóknir áhenni gefur mjög
gagnlegt yfirlit og í eftirmála er skrá yfir þau handrit sem til eru í söfnum.
Fræðimenn eru sammála um að Stjórn sé samsett úr þrem hlutum. Skoðan-
ir Kirbys eru í stuttu máli þessar. Elsti hlutinn, hin svonefnda Stjórn II, nær
yfir 19. kafla 2. Mósebókar til loka 5. Mósebókar og er prentuð á bls. 300
- 349 í útgáfu Ungers. Kirby leiðir líkum að því að hún hafi a.m.k. náð yfir
Mósebækurnar fimm og mjög sennilega einnig yfir önnur sögurit Gamla
testamentisins. Þessi þýðing var til snemma á 13. öld en gæti hafa orðið til
talsvert fyrr. Hún fylgir texta Vulgata all náið en styttingar og úrfellingar
komu fyrir. Mjög lítið er um viðbætur og skýringar í textanum og kynnu
sumar að hafa komist inn í textann síðar. Ein eða tvær af þessum viðbótum
koma einnig fyrir í Historia Scholastica en Kirby telur vafasamt að þær hafi
verið teknar úr því riti. Sumt bendir til þess að annar eða báðir höfundar
síðari þýðinga Stjórnar hafi þekkt þessa þýðingu.
Onnur þýðingin, hin svonefnda Stjórn III, byggðist sennilega á fyrstu
þýðingunni, Stjórn II. Hún nær yfir Jósúabók allt til herleiðingarinnar og
er prentuð í útgáfu Ungers á bls. 349-654. Þessi þýðing var gerð um miðja
13. öld og hallast Kirby að því að Brandur Jónsson biskup sé höfundur
hennar, en hann er sagður hafa þýtt Gyðinga sögu og Alexanders sögu.
Kirby telur mjög líklegt að þessi þýðing hafi einnig náð yfir Mósebækurnar
fimm. Talsvert hefur verið unnið með texta þessarar þýðingar, allmikið er
af viðbótarefni og skýringum.
Yngsta þýðingin, sem nefnd er Stjórn I, studdist sennilega við aðra þýð-
inguna. Hún varð sennilega til á fyrri hluta 14. aldar. Hún nær yfir 1. Móse-
bók fram að 19. kafla 2. Mósebókar og er prentuð í útgáfu Ungers bls. 1-
299. Hún er allmikið aukin og notar ýmsar heimildir einkum Historia
Scholastica eftir Pétur Comestor og Speculum Historiale eftir Vincentius af
Beauvais, sem báðar eru nefndar í formálanum.
I Gyðinga sögu, sem Guðmundur Þorláksson gaf út 1881, er að finna
handrit af 1. Makkabeabók ásamt köflum úr 2. Makkabeabók. Þær tilheyra
hinum svonefndu apókrýfu bókum Gamla testamentisins og fjalla um sögu
Gyðinga á 1. öld fyrir Krist. Sagt er að Brandur Jónsson, sem síðar varð
biskup á Hólum, hafi unnið þýðinguna að beiðni Magnúsar Hákonarsonar
konungs (fæddur 1238). Þýðingin hefur verið gerð í kringum 1260. Kirby
telur að þýðing Brands hafi verið endurskoðuð einhvern tíma fyrir miðja
14. öld og textinn styttur og lagfærður.
Þó að ekkert handrit sé til af Davíðssálmum frá tímanum fyrir siðbreyt-
ingu þá er ýmislegt sem bendir til þess að svo hafi verið. Rannsóknir á hin-
um svonefndu „Vínarsálmum", latneskum saltara frá síðari hluta 13. aldar
þar sem íslensk þýðing hefur verið skrifuð milli lína á síðari hluta 16. aldar,
benda til þess. Sýnt hefur verið fram á að íslenski textinn er ekki glósur til
hjálpar við latínunám heldur byggist hann á eldri íslenskri þýðingu sem 16.