Skírnir - 01.09.1989, Page 229
SKÍRNIR
FORNAR BIBLÍUÞÝÐINGAR
479
ur var við samningu þeirra rita þar sem þessir lengri biblíukaflar koma fyrir
í hafi verið á norrænu eða latínu, þá gefa þessir kaflar nokkra vísbendingu
um aðferðir þeirra sem notuðu þá. Það væri t.d. afar forvitnilegt að kanna
nánar hvort aðferðir manna eins og Gríms Hólmsteinssonar við að setja
saman sögur mótist að einhverju leyti af forskriftum sem rekja mætti til
fornra mælskulistarskóla.
3) I þriðja lagi rannsakar Kirby biblíutilvitnanir í norrænum handritum
og kannar hvaða ályktanir megi draga af þeim um norræna þýðingu Biblí-
unnar eða einstakra bóka hennar fyrir siðbreytingu. I ritinu Biblical
Quotation telur höfundur upp meira en 3500 biblíuvers og kafla í norræn-
um trúarbókmenntum.
Tilvitnanir í einstök rit Biblíunnar í norrænum trúarlegum bókmenntum
eru afar ójafnar. Kirby telur að flestar tilvitnanir megi rekja til latnesks
grunnrits fremur en Biblíunnar. I Gamla testamentinu og apokrýfum bók-
um þess er mest vitnað í Saltarann, þáí Jesaja, Orðskviðina og 1. Mósebók.
Það er eingöngu vitnað í Síraksbók og Speki Salómons í apokrýfum ritum
Gamla testamentisins. Flestar þessara tilvitnana koma úr ritum um Biblí-
una, ekki Biblíunni sjálfri.
I Nýja testamentinu er mest vitnað í guðspjöllin. Postulasagan kemur
eingöngu fyrir sem langir útdrættir í sögum um postulana og um heilaga
menn. Fáar tilvitnanir eru í bréfin. Við samanburð á einstökum ritningar-
greinum koma þannig aðeins nokkur rit Biblíunnar til umræðu. Kirby tek-
ur fram að sýnileg tengsl milli ritningarstaða þurfi ekki endilega að benda
til þess að þeir byggi á sameiginlegri norrænni þýðingu á Biblíunni. Hægt
er að rekja suma þessara staða til annarra rita, sumir eru upprunalega lít-
úrgískir eða eru vel þekktir ritningarstaðir. Suma er tæplega hægt að þýða
öðru vísi en gert er.
Höfundur tekur nokkur dæmi um tilvitnanir í einstakar bækur Biblí-
unnar. Tilvitnanir í 15. vers 22. sálms Davíðs koma fyrir nær samhljóða
bæði í Samræðum og Hómilíum Gregoríusar. Þau handrit sem geyma
þessa texta eru frá því fyrir 1200 og fyrr, því að elsta íslenska handritið (AM
237a fol) er talið vera frá 1150 en það handrit geymir útdrátt úr 34. hómilí-
unni. Kirby dregur þá ályktun af þessum sálmatilvitnunum í ritum
Gregoríusar að til hafi verið norræn þýðing á Saltaranum fyrir og sennilega
löngu fyrir 1150.
Mikið er um tilvitnanir í guðspjöllin. Eins og í Sálmunum ber saman-
burður á hliðstæðum ritningarstöðum vitni um fjölbreytni og sveigjanleika
í þýðingunni. Faðir vor hefur ekki einu sinni fengið samræmt form á þessu
tímabili. Tiltölulega fáar hliðstæðar tilvitnanir koma fyrir og flestar koma
þær úr Hómilíum Gregoríusar. Orð glataða sonarins í Lk 15.17 komafyrir
í nær sömu mynd bæði í Hómilíu og Samræðu Gregoríusar. Sama er að
segja um frásögnina um Lasarus. Orðin í skilnaðarræðu Jesú í 14. kapítula
Jóhannesarguðspjalls, „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður“, koma