Skagfirðingabók - 01.01.1984, Blaðsíða 27
KIRKJUR Á VÍÐIMÝRI
dóttur lögmanns Jónssonar í Ási 1509. „Hjónaband þeirra
Sigurðar og Kristínar stóð ekki lengi. Þau dóu bæði ung og lifði
Finnbogi lögmaður þau og erfði að stórum hluta.“20 I Prest-
hóladómi kemur svo fram, að Finnbogi lögmaður hefur gefið
Þorsteini syni sínum jörðina.21 Þorsteinn sýslumaður Finn-
bogason gefur svo Olafi Daðasyni, frænda sínum, Arasonar í
Snóksdal, Víðimýri „til kvonarmundar" er Ólafur gekk að eiga
Katrínu Torfadóttur, Jónssonar í Klofa, en Þorsteinn átti Sess-
elju systur Katrínar.22 Olafur dó eftir þriggja ára hjónaband, og
voru þau Katrín barnlaus. Eftir lát Olafs býr Katrín á eignar-
jörð sinni, Bræðratungu.23 I dómi þriggja presta og þriggja
leikmanna á Þingvelli 28. júní 1526 kemur fram, að „Katrín
Torfadóttir bífalaði áðurgreindum herra Ogmundi nefnda jörð
Víðimýri til fullrar eignar og frjáls forræðis undan sér og sínum
erfingjum með öllum þeim gögnum og gæðum sem greindri
jörð fylgir og fylgt hefur að fornu og nýju.“24 Ogmundur
biskup Pálsson er þá orðinn eigandi Víðimýrar ekki seinna en
1526. Fjórtán árum síðar er biskup Norðlendinga, Jón Arason,
búinn að hreppa Víðimýri, hvernig svo sem hann hefur farið að.
Árið 1540, þann 23. apríl, gefur hann „sínum kæra frænda, séra
Birni Jónssyni, jörðina Víðimýri.“25 Við lát þeirra feðga hefur
Þorsteinn Finnbogason aftur náð tangarhaldi á Víðimýri. Niku-
lás, sonur Þorsteins, mun hafa átt jörðina á ofanverðri 16. öld
og gæti hafa búið þar um og eftir 1560, er hann hélt Hegranes-
þing, a. m. k. telur Guðbrandur biskup hann kirkjubónda á
Víðimýri 1569. Nikulás andast 1591.26
Á öndverðri 17. öld býr á Víðimýri Sigurður sýslumaður
Hrólfsson. Foreldrar hans voru Hrólfur lögréttumaður Bjarna-
son hinn sterki á Álfgeirsvöllum og kona hans, Ingibjörg
Bjarnadóttir Torfasonar í Klofa. Sigurður er fæddur um 1572
og hefur fengið hálft Þingeyjarþing um 1606 til móts við
Þorberg bróður sinn, sem bjó á Seylu. Kona Sigurðar var
Guðrún Sæmundsdóttir prests Kárssonar í Glaumbæ. Sigurður
25