Skagfirðingabók - 01.01.1984, Blaðsíða 184
SKAGFIRÐINGABÓK
Guðrún áttu nokkur börn. Þrjú náðu fullorðinsaldri og tvö áttu
afkomendur, Tómas og Guðbjörg. Laundóttir Tómasar með
Ragnheiði Þorsteinsdóttur, svarfdælskri konu, hét Friðbjörg.
Eru þeir býsna margir orðnir, sem rekja mega ætt sína til
Tómasar.
Þess er áður getið, að vinátta mikil væri með þeim Tómasi og
Gísla Konráðssyni. Má í ævisögu Gísla lesa, að honum hafi
naumast þótt ráð nema bera það undir Tómas áður. Espólín
kallar hann í ævisögu sinni „vitran mann og vel að sér“. Hann
var hreppstjóri Lýtinga í tíu ár og sáttaleitamaður enn lengur,
þótti manna lögvitrastur og oft beðinn fyrir mál. Tómas var í
eðli sínu afar friðsamur og óáleitinn og virðist ekki hafa erft það
við menn, þótt þeir gerðu honum sitthvað til angurs, sem þó var
sjaldan; var að vísu ýtt frá Hvalnesi að lyktum.
En þótt friðsamur væri, lét Tómas ekki afskiptalaust, ef til
hans var leitað um ráð eða liðsinni við málstað, sem hann taldi
réttan. LJm þessar mundir urðu ýmsir atburðir með Skagfirð-
ingum og fulltrúum hins veraldlega valds. Hámarki náðu deilur
þessar, er Skagfirðingar riðu norður að Möðruvöllum vorið
1849 og hrópuðu Grím amtmann Jónsson niður. Vann Tómas
að undirbúningi þeirrar ferðar ásamt Gísla Konráðssyni, Jóni
Samsonarsyni alþingismanni o. fl. Hann fylgdi Jóni á Þingvalla-
fund þá um sumarið, og fóru þeir sjö saman úr Skagafirði. Var
Tómas þá orðinn 66 ára. Segir Gísli mjög skemmtilega frá því
ferðalagi, fundinum, svo og áliti Víkurbúa, (þ. e. Reykvíkinga)
á þeim frændum og Jóni, uppreisnarseggjunum norðan úr
Skagafirði.
Tómas var „harla vel að sér í bókmenntum, náttúruskáld
mikið, en æfði þá mennt lítið.“ Svo er honum lýst í Sögu frá
Skagfirðingum. Þegar Gísli Konráðsson fluttist vestur til
Breiðafjarðar, orti Tómas brag, er hann sendi honum og kallaði
Gíslahvörf. Þar rifjar Tómas upp samskipti þeirra, og er auð-
fundinn söknuðurinn. Síðasta erindið er svohljóðandi:
182