Skagfirðingabók - 01.01.1984, Blaðsíða 138
SKAGFIRÐINGABÓK
faðir hans sat síðast, prestur til Reynistaðarklausturs. Séra
Hallgrímur hélt Glaumbæ fjóra áratugi, en áður Ríp í Hegra-
nesi, og þangað vígðist hann 1888. Hann var mjög hraustur að
afli á fyrri árum sínum og glíminn. Gísli skáld Olafsson sagði
mér á unglingsaldri að séra Hallgrímur hefði hvert ár, meðan
hann þjónaði Ríp, þreytt glímur og aðrar þolraunir við sóknar-
mann sinn, Jón heljarmennið Ósmann í Utanverðunesi, en líkt
var um aldur þeirra, prestur þó yngri. Enginn frétti nokkurn
tíma hvernig leikar fóru, segir sagan, því að þeir hurfu ævinlega
tveir einir í hvarf frá öllum bæjum og þögðu seinna báðir eins
og fiskar um viðureignir sínar.
Ég hef lesið að séra Hallgrímur væri geðmikill og kappsfull-
ur. Hann var rammpólitískur fyrrum, Valtýingur en seinna
íhaldsmaður, og í trúmálum þótti hann vera af „gamla skólan-
um“, hann vildi kenna börnum Helgakver undanbragðalaust.
Hann var ekki þrumandi ræðumaður í kirkju né utan, en samt
vaskur á málþingum Sæluvikunnar þegar þjarkað var um lands-
ins og kóngsins gagn og nauðsynjar, og heyrði ég oft til þess
vitnað heima, þó sérstaklega kappmæla hans og séra Arnórs í
Hvammi. Þær þrætur lifðu í minni margra sem óviðjafnanlegt
teater. Þar fyrir utan var séra Hallgrímur tungumálagarpur,
einkum í latínu og frönsku — talaði frönsku að sögn liðlega,
sem þá var á fárra manna valdi hérlendis („æfði sig á sjómönn-
um“ meðan hann var í skóla fyrir sunnan), og gruflaði út í
íslenzk fornfræði, Eddurnar sér í lagi. Honum þótti sopinn
góður og skemmti sér oft á hestbaki. I sem fæstum orðum:
hreystimaður til sálar og líkama.
Séra Hallgrímur var fráskilinn fyrir löngu þegar ég starði á
hann sem mest í Villa Nova — og fluttur frá Glaumbæ vestur
fyrir þjóðbrautina að húsabaki, átti heima í Hátúni, gamalli
staðarhjáleigu, vel hýstri jörð. Hann bjó áður mörg ár á litlum
jarðarparti í Glaumbæ, hafðist við einn í suðurhúsi baðstofunn-
ar, þeirrar sem enn stendur, og keypti fæði og þjónustu af
öðrum ábúendum staðarins. Hann átti ekki ýkja margt bóka, en
136