Skagfirðingabók - 01.01.1984, Blaðsíða 50
SKAGFIRÐINGABÓK
er kirkjan sögð 1797 „aldeilis ófær til heilagrar þjónustugjörð-
ar.“
Um aldamótin 1800 var biskupi og landsstjórninni mjög um-
hugað að fækka kirkjum í landinu. Hvort heldur er, að hin-
um nýja kirkjubónda, Benedikt Vídalín, ofbauð niðurlæging
hins forna guðshúss eða hann hlýddi kalli tímans, þá sækir hann
um konungsleyfi til að leggja það niður sem hann og fær, en
„nokkrir sóknarmenn eru því að öllu leyti ekki samkvæmir"
eins og stendur í kirkjustólnum. Þetta er árið 1802. Sex árum
síðar er kirkjan nánast fallin, en Benedikt hefir þá látið undan
óskum sóknarbarna og „opinbert góðviljuglega lofað að
effectuera ekki“ fyrri ásetning sinn. Tveimur árum síðar hefur
hann byggt nýja kirkju.
Kirkja Benedikts Vídalín 1810—1834
Af þessari kirkju eru til greinargóðar lýsingar, m. a. bygging-
arreikningur. Itarlegast er frá henni greint í prófastsvísitazíum
þeirra Péturs Péturssonar 1813 og Jóns Konráðssonar 1823, þar
sem mál fylgja.1 Aðalbreytingar frá fyrri kirkju eru m. a. þær,
að nú er kór og kirkja undir einu formi, timburgólf er komið í
alla framkirkju og hún er þegar full af sætum, stafnar báðir eru
klæddir slagþili, gluggar komnir á framstafn og bindingsverkið
virðist u. þ. b. að sigra stafverkið. Kirkju þessari svipar reyndar
mjög til kirkjunnar, sem nú stendur á Víðimýri. Hún er 9.72 m
á lengd og 3.76 á breidd að innanmáli í sjö stafgólfum; þar af eru
þrjú stutt í kór, en fjögur löng í framkirkju. Kirkjan nú á
dögum er 9.90x3.90 m í sjö stafgólfum með sömu skipan og í
hinni fyrri. Nú vantar mál bæði á lengd kórs og hæð kirkjunnar
yfirleitt, bæði undir bita og kverk. Við gerð teikninga verður í
þeim efnum farið eins að og áður, kór áætlaður jafn að lengd og
breidd, hæðin sett söm breiddinni og biti á þá stærð miðja. Með
því móti verða t. d. stafgólf kórs mun styttri en í kirkju. Innan-
skipan kórs er að því bezt verður séð mjög svipuð og nú er.
48