Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Blaðsíða 69
MÚLAÞING
67
Jökulsárbrú, til að hindra samgang sauðfjár. Þessar aðgerðir studdi
sýslan fjárhagslega. Þá má ekki gleyma garnaveikinni í sauðfé sem við
var að stríða um og eftir 1950. Sýslunefnd gekkst þá fyrir því að fá lyf
frá rannsóknarstofnuninni á Keldum til bólusetningar gegn þessari
veiki, þannig tókst að haldaþeirri pest í skefjum. Enn ersauðfé bólusett
gegn þessari veiki.
Árið 1895 var á sýslufundi kosin þriggja manna nefnd til að semja
reglugerð um eyðingu bandorma í hundum. I nefndina voru tilnefndir
þeir Guðmundur læknir Scheving, Jón læknir Jónsson og Jónas skóla-
stjóri Eiríksson. Árið 1896 voru tilnefndir hundalæknendur í hverjum
hreppi sýslunnar. Árið 1899 er ný reglugerð um lækningu hunda af
bandormum prentuð. Skýrslur um hreinsun hunda hafa árlega borist
sýslumanni og verið um þær fjallað á sýslufundum.
Nú er það riðuveikin í sauðfé sem er mikið vandamál bænda og ekki
séð fyrir endann á því hvort það tekst að útrýma henni með niðurskurði
sem nú er í fullum gangi. Þetta mál hefir verið rætt á sýslufundum.
í þættinum Verksvið sýslunefnda, er getið nokkurra bænda, sem
fengu leyfi sýslunefndar til að versla í heimahúsum. Við þann lista má
bæta eftirtöldum bændum: Þorvaldi Benediktssyni Hjarðarhaga Jökul-
dal, fékk leyfi 1917, Vigfúsi Þórðarsyni Hjaltastað 1918, Jörgen Kjerúlf
Brekkugerði 1919 og Runólfi Bjarnasyni Hafrafelli í Fellum 1924.
Eins og áður hefir komið fram í þáttum þessum, lauk byggðinni í
Loðmundarfirði um 1967, urðu þá nokkur vandræði með fjallskil þar
o. fl. Á sýslufundi 1970 var samþykkt að sameina Loðmundarfjarðar-
hrepp Borgarfjarðarhreppi.
IÐNIR
Árið 1882 gefur sýslunefnd meðmæli sín til landsstjórnar um að
Jóhann Frímann Jónsson á Ormarsstöðum í Fellum fái styrk til greiðslu
andvirðis tóvinnuvéla, og ákvað nefndin að sýslusjóður greiddi helming
móti þeim styrk. Með tilstyrk Þorvarðar læknis Kjerúlfs, sem þá var
alþingismaður Norðmýlinga, voru vélar þessar keyptar frá Danmörku.
Byggt var yfir þessar vélar við Ormarsstaðaá og þeim komið þar fyrir,
knúðar voru þær með vatnsafli. Eftir að uppsetningu tóvélanna lauk,
voru þær reknar í tvö eða þrjú ár, eða þar til Jóhann tóvélstjóri féll
frá í nóv. 1889. Enginn varð til að taka upp reksturinn að honum
látnum, tækin voru seld og tvístruðust víðs vegar.
Á fundum sýslunefndar 1898 og 1901 var mikið rætt um að æskilegt