Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Blaðsíða 216
214
MÚLAÞING
fæddur. Man eg, að við hlupum öll á spretti með ærslum og aðgangi
heim til bæjar, en vegna þess að eg var yngstur, urðu hin börnin á
undan mér inn göngin og upp stiga sem lá upp á baðstofuloftið. Sneru
þau sér þá við á pallskörinni til þess að horfa til mín, en eitthvert
þeirra henti í mig klút eða tusku, sem lagðist yfir höfuðið á mér. Þótt
einkennilegt megi virðast, varð mér svo mikið um þennan hrekk, þótt
lítill væri, að eg mun ekki gleyma honum á meðan eg lifi.
Eitt af því besta veganesti sem eg hlaut í föðurhúsum, heldur Einar
áfram, var það, að eg lærði snemma að vinna. Ólst eg þó upp við
margt gott og mikið eftirlæti. Fyrir mig bar ekkert, sem í frásögur er
færandi eða í letur má færa, fyrr en eg er fjórtán ára gamall. Þá bjuggu
foreldrar mínir að Kambseli í Geithellnahreppi, afdalajörð, með okkur
þrjú systkinin og eina fósturdóttur. Fóru þau þá í kynnisför um haustið
út í sveitina að morgni dags og komu aftur um kvöldið. Báðu þau mig
að hirða um hey, sem var nokkuð frá bænum, og voru hin börnin með
mér. Meðan eg var að snúa í heyinu, fóru þau í berjamó. Það hagaði
þá svo til þar í sveit, að geldneyti hreppsins voru þarna á afrétt. Myndi
það ekki hafa þótt fullnægjandi búnaður nú sem marka átti þeim bás.
Var það grjótgarður á að giska mjaðmar hár. Flöfðu nautin nú rutt
skarð í garðinn og komist þannig út. Þegar eg var búinn að snúa í
heyinu fór eg að horfa eftir hinum börnunum. Sá eg þá nautin koma
hlaupandi á svokölluðum Eyrum þar skammt frá, með orgum og illum
látum. Skaut mér þá mjög skelk í bringu vegna yngri systkina minna.
Kallaði eg þá til þeirra sem voru skammt frá mér, og sagði þeim að
hlaupa sem fljótast heim. Tók eg þá yngsta barnið, sem ekki var nema
sjö ára gamalt og eðlilega átti erfitt með að fylgja okkur hinum, á
bakið og reyndi svo að komast sem hraðast áfram. Neyttum við nú
allrar orku til þess að komast sem fljótast heim. Á leiðinni var yfir
smálæk að fara, og þegar þangað kom voru nautin um það bil tíu
faðma á eftir okkur. Munaði þá minnstu, að við fyndum nasablásturinn
frá þeim sem næst voru að baki okkar. Voru nautin sex að tölu, og
eru mér enn í fersku minni þau tvö sem fremst runnu. Var annað
þeirra stór svartur tarfur, en hinn rauðskjöldóttur. Þegar við komum
að læknum, þreif eg Sigurð bróður minn undir aðra höndina og stökk
með hann yfir á hinn bakkann. Efalaust tel eg að nautin hefðu náð
okkur þarna á lækjarbakkanum, hefði það ekki orðið okkur til hjálpar,
að kýrnar voru heima á túni og einmitt staddar utan við lækinn skammt
fyrir neðan, þar sem við fórum yfir hann. Vildi nú svo til, að ein kýrin
varð nautanna vör og rak upp öskur rétt í þann mund, sem þau voru