Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Blaðsíða 139
MÚLAÞING
137
dag nokkurn, þegar við bræður höfðum verið að smala Hnefilinn í
niðaþoku og rigningu og vorum um eftirmiðdaginn að draga nokkrar
kindur í kláfferju yfir Jöklu að hann kom drengurinn að heiman með
skilaboð um að Esjan væri á Reyðarfirði og færi þaðan kl. 7 í fyrramálið.
Óhugsandi var að ná til skipsins fyrir þann tíma, en í von um að enn
kynni því að seinka, afréð ég að fara. Ég tók hestinn af drengnum og
reið heim. Það hafði ekki verið búist við að ég færi, en ekki var reynt
að letja mig.
Það sem tiltækt var af farangri mínum var látið í koffort og poka
og þá var komið að máltíðinni - síðustu máltíðinni.
Þau voru þrjú í eldhúsinu. Sonurinn sat við endann á matborðinu í
borðstofuendanum og snæddi, faðirinn gekk um gólf og móðirin hljóp
við fót á milli eldhússins og tveggja kjallara og sótti meiri og meiri
mat. Hann: Hættu nú þessum hlaupum, hann borðar varla helminginn
af þessu hvað þá meira. Hún: Það er nú annað hvort að hann fái
almennilega að borða núna, það verður víst bið á því að hann sitji
hérna við borðið hjá mér. Hann: O-ho, hann kemur víst fljótlega aftur.
Hann gerir varla mikla fígúru. Kannski var þetta sagt til að sefa angur
móðurinnar, en strákurinn tók það til sín og varð öskureiður. Hann
hafði ekki vanist því að svara foreldrum sínum og sagði því ekkert,
en því hét hann með sjálfum sér að þessi spá skyldi ekki rætast. Faðirinn
vissi ekki að með þessu orðalagi var hann að gefa syni sínum bestu
gjöfina, sem völ var á. Á angursstundum seinna á námsferlinum, þegar
pyngjan var tóm og engir möguleikar í augsýn komu þessi orð upp í
huga sonarins og stálhertu hann.
Reiðingur var lagður á Gránu, en hún var eina hrossið, sem var
heima við. Farangur minn var hengdur á klakkana og ég varð að fara
gangandi. Systur mínar þrjár fylgdu mér hálftíma gang út að Húsánni,
sem rennur á landamörkunum. Þar kvöddumst við hversdagslega eins
og siður var. Ég settist upp á reiðinginn yfir strauminn. Skammt handan
við ána byrjaði nóttin.
Þegar jörð er auð í dal, sem er barmafullur af náttmyrkri, niðaþoku
og rigningu og þetta er að haustlagi, þá sést varla móta fyrir götutroðn-
ingi. Ferðamaðurinn verður næstum að þreifa sig áfram með fótunum
og ferðin sækist seint. Rauðar og bláar rósir svífa fyrir sjónum, þegar
starað er í sortann og ókennilegur lagstúfur endurtekur sig án tóna í
sljóu hugskoti hins þreytta göngumanns. Þungur árniður í fjarska.
Síðla næturinnar breyttist rigningin í snjókomu. Þegar komið var
upp í Heiðarendann var snjórinn tekinn að fjúka saman í smáskafla